Berjast við að halda velli

Ferðaþjónustan bíður eftir opnun landamæra til að geta bókað gistingu …
Ferðaþjónustan bíður eftir opnun landamæra til að geta bókað gistingu og þjónustu á næsta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Barátta fyrirtækja í ferðaþjónustu stendur nú um að halda þeim starfhæfum í vetur þannig að þau geti tekið við bókunum og þjónað ferðafólki sem vonast er til að byrji að skila sér aftur til landsins í vor.

Mörg ferðaþjónustufyrirtæki eru lokuð og sjá ekki fram á að fá neinar tekjur sem skipta máli í vetur. „Út á það gengur baráttan þessa mánuðina, að tryggja að innviðirnir verði til staðar svo við getum spyrnt okkur hressilega frá botninum sem við erum nú á,“ segir Kristófer Oliversson, formaður Félags fyrirtækja í hótelrekstri og gistiþjónustu.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, hefur áhyggjur af því að fyrirtækin sligist undan skuldum og bankarnir þurfi að innkalla veð sín. „Það er ómöguleg staða ef stór hluti af mikilvægum rekstrareignum ferðaþjónustunnar verður ekki til staðar þegar við þurfum á þeim að halda til viðspyrnu,“ segir Jóhannes.

Mörg fyrirtæki sem bjóða upp á jöklagöngur og íshellaskoðun virðast ekki ætla að leggja upp laupana þrátt fyrir lokun landsins. Alls sóttu 27 fyrirtæki um gerð samninga við Vatnajökulsþjóðgarð til eins árs um íshellaferðir og jöklagöngur á suðursvæði þjóðgarðsins. Sett hefur verið hámark á fjölda gesta í þessum ferðum á fimm svæðum til að draga úr álagi ferðamanna á viðkvæmum svæðum. Hefur fyrirtækjunum nú verið úthlutað kvótum fyrir þann fjölda ferðamanna sem mega fara á hvert svæði um sig. Er það í fyrsta skipti hér á landi sem aðgangi að jöklum er stýrt með þessum hætti, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert