Ferð til Krítar fæst bætt

Grikkland Í sól og sumaryl í sjónum.
Grikkland Í sól og sumaryl í sjónum.

Ferðaskrifstofa þarf að endurgreiða að fullu pakkaferð sem bókuð hafði verið í vor en varð að aflýsa af völdum kórónuveirunnar. Um er að ræða útskriftarferð Borgarholtsskóla sem ferðaskrifstofan Tripical skipulagði.

Einn útskriftarnemanna lagði fram kæru hjá Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa og fór fram á að fá endurgreiddar tæpar 190 þúsund krónur sem greiddar höfðu verið vegna ferðar til Krítar í Grikklandi í maí.

„Í byrjun maí árið 2020 kveðst sóknaraðili hafa orðið þess fullviss að ferðin yrði ekki farin vegna útbreiðslu Covid-19-sjúkdómsins. Óskaði sóknaraðili eftir endurgreiðslu fyrir ferðina með tölvupósti hinn 12. maí 2020, en ekkert svar barst. Varnaraðili tilkynnti hinn 24. maí 2020 að sögn sóknaraðila að ferðinni hefði verið aflýst. Sóknaraðili kveðst hafa ítrekað kröfu sína um endurgreiðslu í kjölfarið. Svar barst frá varnaraðila þar sem fram kom að afgreiðsla endurgreiðslubeiðnarinnar myndi taka tvær vikur. Sóknaraðila hefur hins vegar ekki borist greiðsla frá varnaraðila þrátt fyrir ítrekun kröfunnar,“ segir í úrskurði nefndarinnar.

Uppfært kl. 13.33:

Elísabet Agnarsdóttir, einn eigenda ferðaskrifstofunnar Tripical, vill koma því á framfæri að umrætt mál hafi verið afgreitt fyrir nokkru. „Þegar ég fæ bréf frá þessari nefnd er hann löngu búinn að fá endurgreitt,“ segir hún í samtali við mbl.is. Elísabet segir jafnframt að allir útskriftarnemar og aðrir sem áttu bókað hjá ferðaskrifstofunni, fyrir utan örfáa sem hafi gefið upp rangar bankaupplýsingar, hafi fengið endurgreitt, alls um 8-900 manns.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert