Nýtt spálíkan Háskóla Íslands um þróun kórónuveirufaraldursins hér á landi gerir ráð fyrir því að faraldurinn verði lengi að ganga niður. Líkanið gerir ráð fyrir að nokkur fjöldi fólks hafi smitast síðustu daga og muni greinast með veiruna á næstu dögum. Árangur sóttvarnaaðgerða geti verið sjáanlegur eftir eina viku, að því gefnu að þátttaka almennings í aðgerðunum sé góð.
Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, segir að mögulega muni faraldurinn vera lengur að ganga niður en í fyrstu bylgju vegna þess að þátttaka og viðhorf almennings til sóttvarnaaðgerða sé nú minni en í vor. Hann segir að rannsóknir Félagsvísindastofnunar HÍ gefi til kynna að viðhorf almennings til sóttvarnaaðgerða sé verra nú en á toppi fyrstu bylgju.
„Fyrri líkön okkar byggðu á því að smitstuðullinn væri lækkandi – þá sáum við bylgju sem náði toppi og gekk hratt niður – en nú erum við ekkert svo viss um að svo sé,“ segir Thor í samtali við mbl.is
Spálíkan háskólans áætlar að smitstuðull hér á landi sé 1,4 miðað við núverandi stöðu. Það þýðir að hver smitaður einstaklingur smitar að meðaltali 1,4 manneskjur sem síðan smita 1,4 manneskjur til viðbótar. Thor segir að það sé gríðarlega mikilvægt að koma smitstuðlinum niður fyrir 1.
„Maður fær svona á tilfinninguna eins og þátttaka og viðhorf almennings sé ekki endilega eins og það var í fyrstu bylgju,“ segir Thor og bætir við að þátttaka almennings í sóttvarnaaðgerðum sé lykilþáttur í að þær skili tilætluðum árangri.
„Hins vegar höfum við verið að sjá undanfarna daga að hlutfall þeirra sem greinist í sóttkví er yfir 50% sem gefur tilefni til bjartsýni. Ef það heldur áfram þá mun smitstuðullinn lækka. Það er því mjög mikilvægt að fólk virði sóttkví og hjálpi smitrakningateyminu eins og það getur til þess að auðveldara sé að ákvarða hverjir þurfi að fara í sóttkví.“
Thor vakti athygli á því að spábil við ákvörðun smitstuðuls væri nokkuð breitt eða um 0,5-2,9. Þó að áætlað sé að smitstuðullinn sé 1,4 geti hann verið hvar sem er á þessu bili.
„Þetta þýðir að við vitum ekki nema að takmörkuðu leyti hver raunverulegi smitstuðullinn er þó svo við áætlum að hann sé 1,4. Það er vegna þess að það er enn svo hár fjöldi sem greinist á hverjum degi. Ef til dæmis einn einstaklingur af öllum þeim 67 sem greindust í gær smitar óvenjulega marga, þá getum við misst þetta úr höndunum á okkur.“
Á meðan smitstuðullinn er enn yfir einu stigi þá er til staðar óvissa um hvert faraldurinn er að stefna eins og kemur fram í niðurstöðu spálíkansins.
Thor segir einnig að líkan finnskra rannsakenda um áhrif sóttvarnaaðgerða á þróun faraldursins sýni að mjög áhrifaríkt sé að þeir sem geti unnið heima geri það.
„Gögnin úr þessum finnsku gervigreindarlíkönum sýna að það getur haft mikil og jákvæð áhrif á þróun faraldursins að vinna heima. Það og einstaklingsbundnu sóttvarnirnar eru mjög mikilvægir þættir í að aðgerðir skili árangri.“
Að sögn Thors má búast við því að smitstuðullinn verði kominn niður fyrir einn eftir 21. október. Ef það gerist ekki er útlitið ekki bjart.
„Aðgerðir voru hertar hér verulega þann 7. október þannig við ættum að sjá árangur að tveimur vikum liðnum. Ef við miðum við reynslu okkar úr fyrstu bylgju þá ættum við að sjá smitstuðulinn fara niður fyrir eitt stig þann 21. október. Ef það gerist hins vegar ekki þá þarf eitthvað að skoða aðgerðirnar betur.“