Átján manna hópurinn sem greindist með kórónuveirusmit á landamærunum í fyrradag og kom frá Póllandi var með virk smit og því ekki með mótefni.
Þetta staðfestir Jóhann K. Jóhannsson, upplýsingafulltrúi almannavarna.
Smitrakning er í fullum gangi og ekkert hefur enn komið upp varðandi fleiri smit hjá fólki sem var í samskiptum við hópinn.
Að sögn Jóhanns tekur einhverja daga fyrir smitrakningarteymið að ná utan um málið.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi í gær að fólkið hafi verið á ferðalagi erlendis en að það sé búsett hér á landi.