Bílaleigu var ekki heimilt að bjóða viðskiptavinum sínum, sem komust ekki hingað til lands í sumar vegna kórónuveirunnar, aðeins inneign í stað endurgreiðslu.
Þetta kemur fram í tveimur úrskurðum Kærunefndar vöru- og þjónustukaupa. Ekki kemur fram hvort um sömu bílaleigu er að ræða í báðum tilvikum.
Í úrskurðum nefndarinnar er rakið að báðir viðskiptavinir fóru fram á endurgreiðslu vegna afbókunar á fyrirhugraðri leigu á bifreið. Annar ferðalangurinn hafði greitt um 44 þúsund krónur fyrir leiguna en hinn ríflega 133 þúsund krónur. Sá síðarnefndi tiltók sérstaklega að hann hefði valið umrædda bílaleigu vegna þess hve sveigjanlegir skilmálar væru í boði um endurgreiðslu í kjölfar afbókunar. Endurgreiðsla fékkst þó ekki en boðið var 25% álag á leigugjaldið í formi inneignar, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.