Nýtt greiningartæki sem von er á til landsins í nóvember mun auka afkastagetu og öryggi við greiningar á kórónuveirusýnum. Búist er við því að sýkla- og veirufræðideild geti tekið alfarið yfir greiningu sýna en samstarf milli deildarinnar og Íslenskrar erfðagreiningar um greiningu sýna hefur gengið vel undanfarna mánuði.
Yfirlæknir deildarinnar segir að tækið geri sýkla- og veirufræðideild kleift að greina mörg þúsund sýni í einu og því geti starfsemin farið fram á tveimur stöðum. Það veiti aukið öryggi ef að smit kæmi til að mynda upp innan deildarinnar eða Íslenskrar erfðagreiningar.
„Við erum að undirbúa húsnæði til þess að taka á móti þessu nýja tæki og bindum vonir við að geta tekið það í notkun fyrir lok þessa árs,” segir Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala í samtali við mbl.is.
„Svona tæki er gríðarlega stórt og móttaka þess umfangsmikil, við gerum jafnvel ráð fyrir því að hingað til lands komi erlendir tæknimenn til þess að aðstoða við uppsetningu þess.“
Tækið kostar um 100 milljónir króna og er sagt geta greint um 4 þúsund sýni á dag.
Karl segir að þrátt fyrir að sýkla- og veirufræðideild og ÍE anni eftirspurn aukist öryggi við að hafa starfsemina á tveimur stöðum.
„Það verður gott að geta haft starfsemina þannig að hún fari ekki öll fram í Vatnsmýrinni [húsakynnum ÍE] ef að til dæmis smit greinist innan deildarinnar eða Íslenskrar erfðagreiningar. Þá getum við enn annað eftirspurn þó svo að starfsemin raksist.“
Smit hefur hins vegar komið upp á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans en Kristinn segir að það hafi ekki haft áhrif á greiningu kórónuveirusýna.
„Við vorum í raun heppin hvað það varðar. Það hefur komið upp smit innan deildarinnar áður en þökk sé ströngum sóttvarnareglum spítalans sem starfsmenn þurfa að fara eftir þá raskaðist starfsemi deildarinnar ekki.“
Kristinn segir að nýja greiningatækið nýtist ekki bara til greininga á kórónuveirusýnum.
„Þetta tæki getur gert margt fleira en að greina kórónuveirusýni. Þannig getum við til að mynda greint sýni sem við höfum áður þurft að senda til útlanda til greiningar.“