Stofninn einn sá minnsti síðan mælingar hófust

Veiðistofn rjúpu er 35% af því sem var í fyrra.
Veiðistofn rjúpu er 35% af því sem var í fyrra. mbl.is/Ingólfur Guðmundsson

Veiðistofn rjúpu er nú einn sá minnsti síðan mælingar hófust árið 1995. Aðeins einu sinni, árið 2002, hefur veiðistofninn verið metinn viðlíka lítill, segir á vef Stjórnarráðsins. Því sé mikilvægt að veiðimenn gæti hófsemi í veiðum.

Veiðitímabil rjúpu verður frá 1.-30. nóvember í ár. Í tilkynningu um það segir að veiðiþol stofnsins sé um 25.000 rjúpur, sem er aðeins 35% af veiðiþolinu frá því í fyrra.

Viðkomubrestur

Sagt var frá því í Morgunblaðinu í síðustu viku að viðkomubrestur hefði orðið hjá rjúpunni.

„Rjúpna­stofn­inn er í niður­sveiflu um allt Norður­land, á Aust­ur­landi er stofn­inn að rísa úr lág­marki og um vest­an­vert landið er stofn­inn lík­lega að ná há­marks­fjölda. Viðkoma rjúp­unn­ar á Norðaust­ur­landi var af­leit og réðu því hra­kviðri um miðjan júlí. Þessa ill­viðris gætti frá Stranda­sýslu í vestri og aust­ur um til Norður-Þing­eyj­ar­sýslu og vænt­an­lega er viðkomu­brest­ur raun­in hjá rjúp­unni á öllu þessu landsvæði. Á Suðvest­ur­landi var af­koma rjúpu­unga hins veg­ar ágæt,“ sagði hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Aðeins má veiða rjúpur til eigin nota.
Aðeins má veiða rjúpur til eigin nota. mbl.is/Ingólfur Guðmundsson

Eftir sem áður er stefna stjórnvalda að nýting rjúpnastofnsins sé sjálfbær. „Jafnframt skuli rjúpnaveiðimenn stunda hóflega veiði til eigin neyslu. Til að vinna að sjálfbærri veiðistjórnun eru stundaðar mikilvægar rannsóknir og vöktun á stofninum og fyrir hendi stjórnkerfi til að stýra veiðinni að viðmiðum um hvað telst sjálfbær nýting,“ segir í tilkynningunni Stjórnarráðsins.

Áfram er í gildi sölubann á rjúpum. Það er bannað að flytja þær út og selja þær. Umhverfisstofnun er falið að fylgja þessu banni eftir.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert