Borgarráð hefur heimilað umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við stígagerð við Rauðavatn. Þetta svæði hefur notið vaxandi vinsælda útivistarfólks. Kostnaðaráætlun hljóðar upp á 140 milljónir króna.
Samkvæmt kynningu skrifstofu framkvæmda og viðhalds felst verkið í því að gera nýja göngu- og hjólastíga ásamt færslu reiðstíga sunnan og austan við Rauðavatn. Stígarnir verða upplýstir með snjalllýsingarbúnaði með tilliti til orkusparnaðar og öryggis.
Stígagerðin er í samræmi við samþykkt deiliskipulag af svæðinu. Verkið er hluti af áætlun um að flýta fjárfestingarverkefnum Reykjavíkurborgar með það að markmiði að veita viðspyrnu við atvinnuleysi af völdum Covid-19.
Áætlað er að framkvæmdir hefjist í nóvember næstkomandi og ljúki í desember 2020. sisi@mbl.is