Sögusvið bókarinnar 107 Reykjavík er eins og titillinn gefur til kynna Vesturbærinn. Það er því vel við hæfi að eiga stefnumót á Ægisíðunni við rithöfundana Auði Jónsdóttur og Birnu Önnu Björnsdóttur. Þær stöllur eru eins og svart og hvítt, að minnsta kosti í útliti. Birna Anna er hávaxin með rennislétt ljóst hár, blá augu og klædd í æpandi bláa kápu; Auður er lágvaxin og dökk á brún og brá með hrokkið hár, í brúnni kápu og ullarsokkum undir skónum. Við bregðum á leik í fjörunni og þær stilla sér upp fyrir framan myndavélina, þó með góða tvo metra á milli sín; jafnvel þrjá. Veðrið ákveður að skipta skapi nokkrum sinnum á sama korterinu; sem gerir myndatökuna bara áhugaverðari. Sólin rembist við að kíkja í gegnum skýin yfir sjó og land og í einni svipan brestur á með þéttum úða. Risastór regnbogi rammar allt í einu húsin á Ægisíðunni inn. Sem sannar að lífið er eins og skáldsaga, eða skáldsaga eins og lífið, en einmitt á blaðsíðu 203 í nýjustu bók þeirra 107 Reykjavík má lesa: Gríðarstór regnbogi gnæfði yfir Ægisíðunni, eins og fyrirheit um að allar óskir íbúanna við götuna myndu rætast hvað úr hverju; sólin braust út á milli skýjanna eftir súld næturinnar.
Mögulega erum við staddar mitt í sögunni!
Hvernig kviknaði þessi hugmynd að skrifa þessa bók saman?
Birna Anna: Fyrir tveimur sumrum sátum við saman yfir kaffibolla og fórum að tala um alls konar týpur. Þá datt okkur í hug að það væri gaman að gera sjónvarpsseríu um íslenskar konur á okkar aldri og reyna að fanga svolítið tíðarandann. Við teiknuðum upp útlínur að sjónvarpsseríu; persónur og atburðarás. Það verkefni lifir ennþá. Svo lögðum við þetta aðeins til hliðar. Í samkomubanninu í mars vorum við svo að kjafta saman og þá kom upp þessi hugmynd að skrifa bók. Það er nefnilega oft svo langt ferli að hugmynd verði að sjónvarpsseríu.
Auður: Já, og við skrifuðum líka sjónvarpsmynd þá, en hún er alveg óskyld þessu. En það var svo í júní, eftir að hafa verið innilokaðar í Covid, sem við ákváðum að skella í gamansögu þar sem við áttum þetta efni.
Birna Anna: Við ákváðum bara að prófa hvað myndi gerast ef við settum efnið í bókarform.
Auður: Svo gátum við ekki hætt að skrifa og allt í einu var komin bók.
Birna Anna: Persónurnar voru til og við vorum búnar að móta þær þannig að þær voru orðnar safaríkar og góðar. Atburðarásin var líka til, þannig að við þurftum bara að skrifa textann. Það er kannski ekkert bara. En við vorum alveg fáránlega fljótar að skrifa. Við duttum í kast saman og vorum helteknar í allt sumar og skrifuðum og skrifuðum.
Hvernig skiptið þið með ykkur verkum, hvernig skrifar maður bók með annarri manneskju?
Auður: Við skrifuðum saman á netinu. Við erum með eina vitund, og það er það sem er svo furðulegt við þetta. Við erum rosalega samstiga þegar við skrifum og verðum eins og einn hugur. Stundum vorum við að skrifa sömu setninguna á sama tíma.
Birna Anna: Þetta var alveg magnað. Við vorum með opið skjal og settum tóninn í upphafi og vorum svo bara inni í honum saman. Ég skrifaði kannski setningu og Auður kláraði og þá skrifaði hún kannski orðin sem ég var að hugsa. Sama orðalag. Við vorum í rosalegum hugarbræðingi.
Nú er sögusviðið Vesturbærinn, af hverju og hvað er svona sérstakt við Vesturbæinn?
Auður: Þarna safnast saman ólíkt auðmagn. Fjármagnsauðmagn, félagslegt auðmagn og menningarlegt auðmagn. Jafnvel stjórnmálalegt og akademískt. Þarna er mikill valdasambræðingur á litlum bletti. Á Kaffi Vest má finna milljónamæringa, stjórnmálamenn, listamenn og svo unglinga og gamlar konur.
Birna Anna: Ísland er svo lítið samfélag að hér blandast frekar saman ólíkar kreðsur en gerist erlendis. Hér þekkjast allir og í Vesturbænum ýkist það enn. Vesturbærinn er Ísland í eimaðri merkingu.
Auður: Gamla ásýnd Vesturbæjarins er ekki lengur til; nú koma Range Rovererarnir niður Holtsgötuna í hjörðum eins og rollur. Þetta er góðborgarahverfi. Við erum að leika okkur með góðborgarafíling. Við erum líka að gera grín að eigin veruleika. Ég er fastagestur á Kaffi Vest.
Birna Anna: Við hlífum ekki okkur og gerum grín að þeim veruleika sem við erum sjálfar þátttakendur í.
Nú eruð þið miðaldra konur að skrifa um miðaldra konur. Eigið þið eitthvað sameiginlegt með þessum persónum eða hvar eru fyrirmyndirnar?
Auður: Við eigum stóra vinkonuhópa og erum að leika okkur með sögur og atvik úr nærumhverfinu. Það skrítna sem gerðist var að okkur fannst kannski eitthvað vera of fáránlegt en svo gerðist bara eitthvað alveg eins í raunveruleikanum, eða fáránlegra.
Birna Anna: Þótt maður sé að skrifa farsa er veruleikinn oft farsakenndari en skáldskapurinn. Höfundar þurfa stundum jafnvel aðeins að dempa lýsingar, því atburðir í sögu þurfa að lúta lögum frásagnar en veruleikinn lýtur engum lögmálum. En varðandi aldurinn, þá er þetta mjög áhugavert æviskeið. Fólk er ekki lengur ungt og efnilegt en heldur ekki gamalt. Það eru enn tækifæri til að breyta og umturna lífi sínu. Fólk á þessum aldri er oft ólgandi að innan og getur togstreitan á milli ytri veruleikans og hins innri valdið miklu drama og miklum húmor.
Auður: Þetta eru ráðvilltar konur. Þær eru mikið að reyna að marka sér félagslega stöðu en koma sér sífellt í vandræði. Þær eru svolítið eins og í seinni unglingaveiki, eins konar gráum fiðringi. Þetta er bleiki fiðringurinn. Þær eru á fimmtugsaldri en svolítið eins og unglingar, en ekki eins mikið með á nótunum og unga fólkið, ekki eins „streetwise“.
Hvernig finnst ykkur að vera miðaldra konur? Er það gaman eða er krísa í gangi?
Auður: Mér finnst það mjög flókið. Það er auðvitað mismunandi; Birna er gift, ég er skilin. Svo er þetta aldurinn sem breytingaskeiðið bankar upp á. Mér finnst þetta hafa verið eitt flóknasta tímabil í lífi mínu. Ég þarf að skilgreina allt upp á nýtt. En um leið er það skemmtilegt og gefandi. Maður veit loks hver maður er.
Birna Anna: Mér finnst það vera fínt og frelsandi. Með aldrinum verður manni meira sama hvað öðrum finnst og hvílir betur í sér. Þegar ég var yngri var ég meira að hugsa um að gera öðrum til hæfis og mér finnst ég laus við það að mestu. Það kemur með aldrinum.
Auður: Ég var í hjónabandi og fann mig í því að vera húsmóðir og rithöfundur. Svo skildi ég og flutti á milli landa og þá fór allt í upplausn aftur. Maður er á nýjum forsendum og þarf að staðsetja sig upp á nýtt.
Lesa má viðtalið í heild sinni hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins.