Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í dag karlmann á Austurvelli, en maðurinn er grunaður um að hafa framið vopnað rán í verslun í miðbænum fyrr í dag.
Myndbandi af handtökunni var deilt á Twitter í dag. „Er þetta eðlilegar varúðarráðstafanir lögreglu þegar handsama þarf tvo ógæfumenn af bekk á Austurvelli? Er sérsveitin, stífvopnuð og vissulega mjög ógnandi í sínum aðgerðum, nauðsynleg í svona útköll? Eiga útigangsmenn í Reykjavík á hættu að verða skotnir?“ spurði sá sem deildi myndbandinu.
Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir það staðlaða verkferla að sérsveitin sé kölluð út undir þeim kringumstæðum sem uppi voru við handtökuna.
„Það var framið rán þarna fyrir hádegi og við fundum manninn á Austurvelli. Hann var með eggvopn á sér og sérsveitin handtók hann,“ segir Jóhann.
„Annar þessara manna hafði rænt verslun, otað hníf að starfsmanni og farið á brott með reiðufé. Ef þú ert að vinna í verslun og það kemur maður sem otar að þér hnífi og heimtar peninga, þá tökum við enga sénsa á því að maðurinn sé ekki að fara að ráðast á okkur með hnífnum eða verja sig með honum svo við köllum á sérsveitina sem handtekur hann. Það eru bara stöðluð vinnubrögð,“ segir Jóhann.
Að sögn Jóhanns bíður viðkomandi nú yfirheyrslu og þarf að sofa úr sér vímu áður en hægt verður að ræða við hann.
Ég spyr: Er þetta eðlilegar varúðarráðstafanir lögreglu þegar handsama þarf tvo ógæfumenn af bekk á Austurvelli? Er sérsveitin, stífvopnuð og vissulega mjög ógnandi í sínum aðgerðum nauðsynleg í svona útköll? Eiga útigangsmenn í Reykjavík hættu á að vera skotnir? @logreglan 1/ pic.twitter.com/vUaAb4gPvi
— Geoffrey Skywalker © (@Geoffreyskywalk) October 17, 2020