Hafið samband, það er alltaf von!

Hildur Guðný Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri sjálfsvígsvarna hjá Embætti landlæknis.
Hildur Guðný Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri sjálfsvígsvarna hjá Embætti landlæknis. Eggert Jóhannesson

„Hafið samband! Það er hjálp til staðar og það er alltaf von.“ Þetta eru skilaboð Hildar Guðnýjar Ásgeirsdóttur, verkefnastjóra sjálfsvígsvarna hjá Embætti landlæknis, til fólks sem líður illa úti í samfélaginu og glímir jafnvel við sjálfsvígshugsanir. Mikið álag er á heilbrigðiskerfinu vegna kórónuveirufaraldursins og sífellt hamrað á því í fjölmiðlum. Hildur Guðný segir þetta geta haft þær afleiðingar að fólk sem þarf á aðstoð að halda vegna geðrænna kvilla veigri sér við að hafa samband til að auka ekki álagið á kerfið. 

Hildur Guðný segir geðheilbrigði alltaf mikilvægan málaflokk, sérstaklega í því árferði sem við búum við núna. Við aðstæður sem þessar sé mikilvægara en endranær að fylgjast vel með viðkvæmum hópum í samfélaginu, faraldurinn komi til með að hitta einstaklinga misjafnlega fyrir. „Eitt af því sem við getum gert er að fylgjast með í rauntíma innlögnum á spítala vegna sjálfsvígstilrauna eða sjálfsskaða og sem betur fer sýna þær tölur ekki hækkun miðað við fyrri ár. Hjálparsími Rauða krossins, 1717, og Píeta-samtökin taka líka stöðuna en hægt er að hringja í þau allan sólarhringinn alla daga vikunnar.“

Hún segir mjög brýnt að efla eftirfylgd í kjölfar sjálfsvígstilrauna í allt að tvö ár á eftir en dæmin sanna að fyrri sjálfsvígstilraunir séu alvarlegur áhættuþáttur sjálfsvíga. „Ein af aðgerðunum sem við erum að þróa ásamt Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu er innleiðing á eftirfylgd í kjölfar tilrauna. Eins skiptir miklu máli að efla fræðslu og viðbrögð við sjálfsvígshugsunum og samræma þetta á öllu landinu. Þá erum við að horfa til heilbrigðisstarfsmanna, skólahjúkrunarfræðinga, kennara o.fl. Fólk hefur kallað eftir leiðbeiningum um hvernig tala má við einstaklinga þegar þessar hugsanir knýja dyra.“

Benedikt Þór Guðmundsson, einn stofnenda Píeta-samtakanna.
Benedikt Þór Guðmundsson, einn stofnenda Píeta-samtakanna. Árni Sæberg


Fleiri að hafa samband

Benedikt Þór Guðmundsson, einn af stofnednum Píeta-samtakanna, segir merki þess að fleiri, ekki síst fólk á aldrinum 18 til 25 ára, séu að hafa samband við Píeta-samtökin. „Þetta fólk er gjarnan dottið út úr skóla og ekki að vinna. Það er ráðalaust, með mikinn kvíða og líður mjög illa enda þótt meirihlutinn sé alla jafna ekki í sjálfsvígshugleiðingum. Það getur verið stórt skref að biðja um hjálp en ég hvet fólk til að hika ekki við það; það að tala um ástandið og líðan sína getur haft mjög góð áhrif og verið upphafið að bataferlinu,“ segir hann.

Að sögn Benedikts er margt af því unga fólki sem leitar til Píeta-samtakanna félagslega einangrað og ekki mikið fylgst með því. Það sé orðið átján ára og þar af leiðandi ábyrgt fyrir sjálfu sér. „Það er ekki nægilega mikil eftirfylgni með þessum krökkum og það þurfum við að laga. Hlúum betur að börnunum okkar, þó að þau séu orðin sjálfráða.“

Benedikt segir margt vel gert í samfélaginu hvað viðkemur stuðningi við fólk sem líður illa og margir reiðubúnir að leggja sitt lóð á vogarskálarnar, ekki síst sjálfboðaliðar. Kerfið sem slíkt megi þó standa sig betur. „Kerfið virðist ekki vera að sinna þessum einstaklingum nægilega vel. Eftir að börn verða átján ára og öðlast sjálfstæði missir kerfið svolítið sjónar á þeim. Foreldrarnir eiga líka erfiðara um vik; geta ekki lengur hringt til að kanna hvort barnið mæti í skólann og annað slíkt. Allt ber þetta að sama brunni, við verðum að sinna unga fólkinu okkar betur.“

Nánar er rætt við Hildi Guðnýju og Benedikt Þór í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í tengslum við geðhjálparátakið 39. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert