Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í dag karlmann með aðstoð sérsveitarinnar eftir vopnað rán. Um er að ræða þriðja vopnaða rán mannsins á rúmum sólarhring, en maðurinn var einnig handtekinn í gær.
Maðurinn rændi í gær verslun í miðbænum og ógnaði starfsmanni með eggvopni. Hann var handtekinn á Austurvelli af sérsveitinni í gær, en látinn laus úr haldi að lokinni yfirheyrslu. Maðurinn framdi síðan annað vopnað rán í Krambúðinni í Mávahlíð skömmu fyrir hádegi í dag.
Lögreglu grunaði eftir ránið í dag að um væri að ræða sama geranda og sérsveitin handtók í gær. Þegar lögreglu barst tilkynning um vopnað rán við Pylsuvagninn í miðbænum síðdegis í dag var óskað eftir aðstoð sérsveitarinnar og maðurinn síðan handtekinn í annað sinn á rúmum sólarhring. Þá gat lögregla einnig staðfest að umræddur maður hefði framið ránið í Krambúðinni fyrr í dag.
Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að maðurinn verði nú yfirheyrður af lögreglu. Ekki sé útilokað að farið verði fram á gæsluvarðhald.
„Það bara gengur ekki að hafa hann þarna úti,“ segir Jóhann.