„Þetta má ekki vera svona“

Tónlistarmenn hafa ekki farið varhluta af ástandinu.
Tónlistarmenn hafa ekki farið varhluta af ástandinu.

„Allt of margir nú þegar hafa lýst því yfir að þetta muni ekki gagnast þeim,“ segir Ásgeir Guðmundsson, talsmaður Félags sjálfstætt starfandi tónlistarfólks, um stuðningsaðgerðir stjórnvalda fyrir listir og menningu á tímum Covid-19. Þó fagnar Ásgeir því að loks sé gripið til aðgerða í þágu stéttarinnar.

Aðgerðirnar voru kynntar á föstudag og eiga að miða að því að bæta stöðu starf­andi lista­manna og menn­ing­ar­tengdra fyr­ir­tækja.

Í aðgerðunum felast meðal annars tekjufallsstyrkir sem einyrkjar og rekstraraðilar munu geta sótt um en ráðgert er að heildarfjármunir sem varið verður til slíks stuðnings geti numið rúmum 14 milljörðum króna.

Ásgeir Guðmundsson.
Ásgeir Guðmundsson. Ljósmynd/Aðsend

Skilyrði um 50% tekjufall til þess að eiga rétt á stuðningi frá ríkinu hefur sætt gagnrýni meðal listamanna að sögn Ásgeirs.

„Í öðrum úrræðum þá hefur ekki verið óskað eftir því að tekjufall sé svona ótrúlega hátt, til dæmis í Danmörku, auk þess sem atvinnuleysistryggingasjóður gerir ekki kröfu um svona mikið tekjufall til þess að fólk eigi rétt á bótum. Við erum tilbúin að segja að við gagnrýnum þetta. Þetta má ekki vera svona,“ segir hann.

„Ekki sértækar aðgerðir“ fyrir listamenn

„Þetta eru ekki sértækar aðgerðir fyrir listamenn eins og kallað hefur verið eftir heldur eru þetta almennar aðgerðir fyrir sjálfstætt starfandi og örfyrirtæki. Ég vonast til þess að sem flestir geti nýtt sér þetta. Ég er enn að bíða eftir svörum frá stjórnvöldum við nokkrum spurningum. Við höfum áhyggjur af því að margir muni falla utan þess úrræðis,“ segir hann.

Ásgeir segir hópinn hafa nú staðið frammi fyrir úrræðaleysi í sjö mánuði og ef fram fer sem horfir verði sú staða áfram uppi næstu tvo mánuðina í það minnsta. Ekki sé unnt að láta listamenn bíða mánuðum saman eftir úrræðum, miðað við árferðið sem starfsstéttin stendur frammi fyrir í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert