„Við höfum ekki haft svona marga í húsi “

Gylfi Þór Þorsteinsson í farsóttarhúsinu á Rauðarárstíg.
Gylfi Þór Þorsteinsson í farsóttarhúsinu á Rauðarárstíg. mbl.is/Ásdís

Aldrei hafa fleiri dvalið í farsóttarhúsunum en nú. Hátt í 90 manns dvelja nú í húsunum að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar, umsjónarmanns þeirra. 

„Frá því að við opnuðum núna í 2. bylgju hafa verið hjá okkur 600 manns og þar af 242 í einangrun. Við höfum ekki haft svona marga í húsi í einu eins og núna,“ segir Gylfi. 

„Við opnuðum nýjan einangrunargang á hóteli á föstudag og svo opnuðum við nýtt úrræði á laugardag þannig að við erum núna með þrjú hús,“ segir Gylfi. 

Farsóttarhúsin hafa nú auglýst eftir fleiri starfsmönnum vegna álags og segist Gylfi gera ráð fyrir að nýir starfsmenn verði ráðnir í næstu viku. Auk starfsmanna sinna sjálfboðaliðar einnig störfum á vegum farsóttarhúsanna. 

Gylfi segir að þeir sem dvelji í farsóttarhúsunum séu á öllum aldri og komi víða að. Hann segist þó vona að álagið fari að minnka. 

„Það er von til þess að þetta fari minnkandi hjá okkur. Það má segja að álagið sé í hámarki núna,“ segir Gylfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert