Vopnað rán talið tengjast handtöku á Austurvelli í gær

Vopnað rán var framið í Krambúðinni í Mávahlíð í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er talið að gerandinn sé sá sami og sérsveitin handtók á Austurvelli í gær. 

Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að maðurinn sem handtekinn var á Austurvelli í gær hafi verið færður í yfirheyrslu og hann síðan látinn laus úr haldi í morgun. 

Skömmu fyrir hádegi í dag var síðan framið vopnað rán í Krambúðinni í Mávahlíð, en gerandinn ógnaði starfsmanni með eggvopni og rændi reiðufé. 

Jóhann segir líklegt að það rán hafi verið framið af manninum sem handtekinn var í gær, en hann hafði þá framið vopnað rán í verslun í miðbænum. Sérsveitin var þá kölluð út í samræmi við verkferla.

Jóhann segir að mannsins sé nú leitað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert