67% stúdenta við Háskóla Íslands líður frekar illa eða mjög illa í þeim aðstæðum sem eru sökum faraldurs kórónuveirunnar. Þetta kemur fram í niðurstöðum fjórðu könnunar Stúdentaráðs Háskóla Íslands á líðan og stöðu stúdenta í námi vegna faraldursins.
Þá sögðust 73% svarenda upplifa frekar mikið eða mjög mikið álag sökum Covid-19 og telja það hafa áhrif á námsframvindu.
Fram kemur í tilkynningu frá SHÍ að könnunin hafi verið send út í kjölfar þess að hertar aðgerðir voru boðaðar vegna fjölda smita í samfélaginu og ljóst var að stúdentar hefðu áhyggjur af námi sínu. Könnunin fór fram 9.-16 október og voru þátttakendur 2208.
Einnig kemur fram í niðurstöðunum að 63% svarenda sögðust umgangast mjög reglulega fólk í áhættuhóp og 78% hafa haft miklar eða frekar miklar áhyggjur af því að nákominn smitist.
Aðeins 2% svarenda sögðust hafa smitast af Covid-19 en 28% sögðust hafa þurft að fara í sóttkví.
Alls hafa fimm kannanir verið framkvæmdar á stöðu og líðan stúdenta í Covid sem SHÍ hefur átt aðkomu að. Ein þeirra var unnin í samstarfi við Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Landssamtök íslenskra stúdenta. Hún var framkvæmd af Maskínu í vor og sneri einnig að stöðu stúdenta á vinnumarkaði.
Niðurstöður úr þeirri könnun fengust ekki birtar þrátt fyrir beiðni Stúdentaráðs.