Afhenda þingmönnum kröfu 41.000 Íslendinga

Spurninguna „Hvar er nýja stjórnarskráin?“ má finna víða um höfuðborgina, …
Spurninguna „Hvar er nýja stjórnarskráin?“ má finna víða um höfuðborgina, málaða á götur og veggi. Þessi áletrun er líklega sú sem er mest áberandi en hún er við atvinnuvegaráðuneytið í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Undirskriftir 41.000 Íslendinga sem vilja nýja stjórnarskrá verða afhentar formönnum stjórnmálaflokka á þingi á morgun klukkan 13. Afhendingin fer fram fyrir utan Alþingishúsið en hún tekur mið af sóttvarnareglum. Undirskriftasöfnuninni lýkur á miðnætti. 

Afhendingin er lokapunktur undirskriftasöfnunarinnar sem Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá stóðu fyrir. Söngkonan Lay Low mun við afhendinguna flytja lag við „Aðfaraorð nýju stjórnarskrárinnar“. 

Krafan sem yfir 41 þúsund manns hafa undirritað er þessi:

Nýju stjórnarskrána strax!

Við krefjumst þess að Alþingi virði niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 og lögfesti nýju stjórnarskrána. Í kosningunni samþykktu yfir 2/3 hlutar kjósenda að tillögurnar sem kosið var um skyldu verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár. Tillögurnar eru heildstæður samfélagssáttmáli, það er ekki Alþingis að velja og hafna ákvæðum úr sáttmálanum. Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn og setur valdhöfum mörk en ekki öfugt. Við ætlum ekki að bíða í heilan áratug eftir að nýja stjórnarskráin taki gildi og því krefjumst við aðgerða strax!

Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá hófu undirskriftasöfnunina á kvenréttindadaginn 19. júní síðastliðinn í kjölfar heimboðs til forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar. Þegar undirskriftirnar verða afhentar á morgun, 20. október, eru átta ár frá því Alþingi boðaði til þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá, og verða undirskriftirnar því afhentar á afmælisdegi þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

„Munu berjast áfram“

„Markmiðið var að safna 25 þúsund undirskriftum fyrir miðnætti 19. október. Það markmið var valið því samkvæmt nýju stjórnarskránni hefði sá fjöldi undirskrifta um það bil dugað til að kjósendur gætu lagt fram frumvarp á Alþingi. Viðbrögðin við söfnuninni fóru hins vegar langt fram úr vonum. Það kom í ljós að þrátt fyrir langvarandi vanrækslu Alþingis og undanbrögð stjórnmálaflokka í málinu hafa landsmenn ekki gleymt því að þeir sömdu sér nýja stjórnarskrá og greiddu um hana atkvæði þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir í tilkynningu um málið. 

Þar er þeim tugþúsundum sem skrifuðu undir þakkað fyrir sitt framlag sem og þúsundum sem hafa lagt söfnuninni lið með margvíslegum hætti; dreifingu efnis, listgjörningum, framleiðslu myndbanda, auglýsingagerð, framleiðslu á fatnaði, leiklist, tónsmíðum, textagerð, tónlistarflutningi, kostun á auglýsingum, greinaskrifum, fjárframlögum o.fl.

„Óeigingjarnt framlag alls þessa fjölda til söfnunarinnar sýnir svo ekki verður um villst að nýja stjórnarskráin á sér mikinn og sterkan hljómgrunn meðal almennings á Íslandi. Baráttunni er ekki lokið. Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá munu berjast áfram við hlið þessara þúsunda þar til ný stjórnarskrá fólksins hefur verið lögfest,“ segir í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert