Einkafyrirtæki gæti leyst vanda Landspítala

Frá tónleikum karlasönghópsins Fósturvísanna fyrir heimilisfólk hjúkrunarheimilis Hrafnistu í vor …
Frá tónleikum karlasönghópsins Fósturvísanna fyrir heimilisfólk hjúkrunarheimilis Hrafnistu í vor þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst. mbl.is/SIgurður Unnar

Einkafyrirtæki í heilbrigðisþjónustu getur tekið við 100 sjúklingum frá Landspítala án mikils tíma eða tilkostnaðar. Um 100 sjúklingar á Landspítala eru einmitt búnir með sína meðferð og bíða útskriftar, bíða eftir því að komast að á hjúkrunarheimilum. 35 manns þarf að útskrifa þegar í stað svo Landspítali geti tekist á við kórónuveirufaraldurinn með góðu móti.

Þetta er á meðal þess sem kom fram á fundi velferðarnefndar Alþingis í morgun. Fundinn sóttu nefndarmenn ásamt forstjóra Landspítala, fulltrúa úr heilbrigðisráðuneytinu og fulltrúi umrædds einkafyrirtækis, Heilsuverndar.  Fyrirtækið hefur sent ráðuneytinu erindi þar sem fram kemur að það geti tekið við sjúklingunum 100.

Allt að 160.000 krónum dýrara fyrir kerfið daglega

Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar og þingmaður Samfylkingarinnar, segir að þrátt fyrir að hún tali fyrst og fremst fyrir opinberu heilbrigðiskerfi sé það hennar skoðun að taka beri aðilum fagnandi sem séu tilbúnir til að tryggja jafnt aðgengi að sínum lausnum og undirgangast þau skilyrði sem hið opinbera setur fyrir þjónustunni.

„Ég átta mig ekki á því hvers vegna þetta tekur svo langan tíma þegar þetta bara stendur til boða þarna. Þetta er fyrirtæki sem er ekki að greiða arð, fyrirtæki sem hefur nú þegar gert samning við Sjúkratryggingar varðandi heilsugæsluna. Í þeim samningi er sett það skilyrði að fyrirtæki séu ekki að greiða sér arð þannig að skýr vilji Heilsuverndar til að gera sambærilegan samning um öldrunarþjónustu liggur fyrir,“ segir Helga Vala í samtali við mbl.is.

Helga Vala Helgadóttir, er formaður velferðarnefndar Alþingis og þingman Samfylkingarinnar.
Helga Vala Helgadóttir, er formaður velferðarnefndar Alþingis og þingman Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fráflæðisvandi Landspítala hefur verið til umræðu lengur en kórónuveiran hefur plagað heimsbyggðina. Einhverjir samningar hafa verið gerðir við Reykjalund og stofnanir úti á landi um að taka við sjúklingum á Landspítala sem þurfa á annars konar þjónustu að halda. Helga Vala segir þó að það dugi ekki til og bendir t.d. á að Reykjalundur loki yfir jól og áramót og það henti ekki öllum að fara á hjúkrunarheimili utan höfuðborgarsvæðisins.

„Þetta er viðvarandi ástand. Það eru rúmlega 40 sjúklingar á Vífilsstöðum til dæmis sem átti bara að vera algjör bráðabirgðaráðstöfun en er búin að vara núna í um fimmta ár. Það sem kom líka í ljós [á fundinum] er að það það er miklu dýrara fyrir ríkissjóð að hafa þetta svona. Sólarhringurinn á Landspítala kostar frá 70.000 og upp í 200.000, eftir því hvar sjúklingarnir eru að bíða. Á meðan sólarhringurinn á hjúkrunarheimili kostar 40.000,“ segir Helga Vala.

„Þar að auki er þetta ekki viðunandi ástand fyrir sjúklinginn. Sjúklingurinn sem er að bíða í allt að sex mánuði [á Landspítala] á miklu frekar að vera á hjúkrunarheimili heldur en á spítala. Það er bara önnur umgjörð, það er miklu heimilislegra og betra umhverfi fyrir fólk. Ef fólk þarf ekki á spítalavist að halda þá á auðvitað að reyna að koma því sem fyrst inn á hjúkrunarheimili ef hægt er. Þetta er ástand sem mun bara aukast og þá verða stjórnvöld bara að bregðast við.“

„Ekki einkavæðing í öldrunarþjónustu“

Eins og áður segir talar Helga Vala helst fyrir sterku opinberu heilbrigðiskerfi. Hún bendir þó á að með því að fá einkafyrirtæki sem undirgengst kröfur hins opinbera með inn í kerfið sé ekki verið að einkavæða kerfið.

„Sjálfseignastofnanir og einkaaðilar, fyrirtæki sem eru ekki ríkisfyrirtæki og sveitarfélög reka um helming allra hjúkrunarrýma á landinu og meira en helming hér a höfuðborgarsvæðinu. Það er ekki eins og það sé eitthvað nýtt, þetta er ekki einkavæðing í öldrunarþjónustu.“

Miðað við þau gögn sem nefndin fékk í hendurnar fyrir fundinn sem haldinn var í morgun verða hjúkrunarrými sem anna þeirri eftirspurn sem nú er ekki tilbúin fyrr en árið 2025. Helga Vala segir nauðsynlegt að gripið sé inn í fyrir þann tíma.

„Ég held að við höfum ekki þann tíma og ég held að við eigum að taka þeim aðilum fagnandi sem eru tilbúnir til að undirgangast þessi skilyrði sem við setjum varðandi það að það sé ekki verið að taka ríka fólkið fram fyrir röðina, það sé jafn aðgangur fólks inn í þetta, rekstrareiningin sé eins og hún er og það sé ekki verið að greiða út arð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert