Ekki stætt á því að banna hreyfingu í líkamsræktarstöðvum

Þórólfur Guðnason á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Þórólfur Guðnason á upplýsingafundi almannavarna í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir skilaði minnisblaði til heilbrigðisráðherra þann 15. október þar sem lagt er til að íþróttaiðkun án snertingar verði leyfð að hámarki í 20 manna hópi. Þó lagðist Þórólfur gegn því að líkamsræktarstöðvum yrði heimilt að opna á ný.

Heilbrigðisráðuneytið komst þó að þeirri niðurstöðu að ekki væri stætt á því að banna hreyfingu í líkamsræktarstöðvum þar sem unnt væri að uppfylla sömu skilyrði og gilda um íþróttastarf. 

Í reglugerð sem birt var í gær á vef heilbrigðisráðuneytisins er því kveðið á um að líkamsræktarstöðvar megi vera opnar rúmist starfsemi þeirra innan takmarkana sem reglugerð setur. 

Ákvæði nýrrar reglugerðar heilbrigðisráðherra um takmarkanir á samkomum sem heimilar opnun líkamsræktarstöðva að uppfylltum ströngum skilyrðum, byggist á því að jafnræðis og meðalhófs sé gætt. Horft er til þess að sömu skilyrði gildi um íþróttaiðkun og líkamsrækt, þ.e. að iðka megi hvoru tveggja ef regla um 20 manna hámarksfjölda og 2 metra nálægðarmörk er virt,segir í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.

Funduðu var um líkamsræktarstöðvar

Þá segir einnig í tilkynningunni að heilbrigðisráðuneytið og sóttvarnalæknir hafi fundað í dag til að fara yfir þau ákvæði sem gilda um íþróttir og líkamsrækt samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir hefur staðið vaktina frá því að Covid-faraldurinn …
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir hefur staðið vaktina frá því að Covid-faraldurinn hófst hér á landi. Kristinn Magnússon

Ráðuneytið áréttar að öll blöndun milli hópa er óheimil, það á við um salernisaðstöðu, búningsaðstöðu og inn- og útganga o.s.frv.

Þá vinnur sóttvarnarlæknir að gerð leiðbeininga til heilsuræktar- og íþróttastöðva á grundvelli reglugerðar heilbrigðisráðherra. 

Ákvæðið reglugerðarinnar um íþrótta- og heilsuræktarstarfsemi sem tekur gildi 20. október hljómar svona:

Íþrótta- og heilsuræktarstarfsemi sem krefst nándar, snertingar eða notkunar gólf-, loft- eða veggfasts sameiginlegs búnaðar og stórra tækja, svo sem í tækjasölum heilsuræktarstöðva, er óheimil. Notkun á öðrum sameiginlegum búnaði, svo sem handlóðum, hjólum eða dýnum, er heimil ef um er að ræða skipulagða hóptíma þar sem allir þátttakendur eru skráðir. Búnaður skal ekki fara á milli notenda í sama hóptíma og skal sótthreinsaður fyrir og eftir æfingu. Í húsnæði þar sem slík starfsemi fer fram gildir ákvæði 1. mgr. 3. gr. um fjöldatakmörkun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert