Þarf á hjálp að halda

Átján ára piltur sem er í haldi lögreglu hefur framið þrjú vopnuð rán á tveimur dögum í Reykjavík. Á sjöunda tímanum í gær rændi hann pylsusölu í miðborginni en þar náði hann að ræna reiðufé. 

Tilkynning um ránið barst til lögreglu síðdegis í gær en hann var farinn af vettvangi þegar lögregla kom þangað. Hann var handtekinn 20 mínútum síðar úti á Granda. Hann er vistaður í fangageymslum lögreglu en lögreglan hefur þurft að hafa ítrekuð afskipti af piltinum vegna sams konar brota síðustu daga.


Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að drengurinn eigi að sögn að sögn lögreglu greinilega við mikinn vanda að etja. Hann var handtekinn fyrir að ræna Euro Market við Hlemm með því að hóta afgreiðslumanni með eggvopni á laugardaginn. Drengurinn var svo yfirheyrður í gærmorgun en síðan sleppt úr haldi. Þá virðist hann hafa farið beinustu leið í Hlíðahverfið þar sem hann framdi annað vopnað rán í Krambúðinni. Á meðan hans var leitað vegna þess brots framdi hann síðan enn annað vopnað rán á Pylsuvagninum í miðbænum. Lögregla náði honum þá og fór með hann niður á stöð, eftir þessa lygilegu atburðarás, eins og Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn lýsir henni. „En við tökum málið mjög alvarlega enda ekkert grín þegar menn eru að ógna saklausum borgurum með eggvopni,“ segir Jóhann.

Drengurinn gistir fangaklefa í nótt og í dag verður tekin af honum skýrsla, ásamt því sem metið verður hvort fara þurfi fram á gæsluvarðhald yfir honum. Höfuðmálið er að sögn Jóhanns að koma honum til hjálpar, enda ljóst að hann á bágt.

Í bæði skiptin sem hann var handtekinn kom sérsveitin að aðgerðum þar sem viðkomandi var vopnaður og talinn hættulegur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert