Í gær lést einn í eldsvoða í Borgarfirði, en þetta er sjötta mannslátið á síðustu fimm mánuðum í eldsvoða hér á landi, en samtals hafa verið fjórir mannskæðir brunar á þessu ári. Er þetta mesti fjöldi mannsláta í eldsvoðum í meira en áratug og sami fjöldi og á síðustu þremur árum til samans. Þetta má sjá á tölum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Þá hefur einnig verið talsvert um eldsvoða sem hafa valdið miklu tjóni eða slysum á fólki.
Þann 21. febrúar kviknaði í húsnæði vélsmiðjunnar Hamars á Kársnesi í Kópavogi, en í sama húsi eru skrifstofur og lagerhúsnæði Freyju sælgætisgerðar. Varð þar umtalsvert tjón.
19. mars kom upp eldur við skemmtistaðinn Pablo Discobar við Veltusund í Reykjavík, en þar er grunur um íkveikju. Töluverðar skemmdir urðu á húsnæðinu vegna elds, sóts og vatns á öllum hæðum hússins, en rjúfa þurfti þak hússins að hluta.
Síðar í sama mánuði, eða 28. mars, kom upp mikill eldur á bænum Efra-Seli í nágrenni við Stokkseyri. Var fyrst talið að um altjón væri að ræða, en allt sem gat brunnið brann, þótt húsið hafi enn staðið, en um er að ræða steypt hús.
Í maí brunnu fjárhús í Mýrdalshreppi, en þar tókst að koma flestum kindum úr húsunum.
Í sama mánuði, eða 19. maí, varð fyrsta mannslátið í eldsvoða á þessu ári, en þá lést karlmaður á sjötugsaldri eftir bruna í Hafnarstræti á Akureyri. Fannst hann meðvitundarlaus í húsinu og var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur, þar sem hann lést um sólarhring síðar.
Þann 28. maí varð eldsvoði í húsnæði Hrísey Seafood í Hrísey, en um var að ræða stærsta vinnustað eyjarinnar.
Í byrjun júnímánaðar brann sumarhús á Þingvöllum og eldur kom upp á sveitabænum Snartarstöðum í Lundarreykjadal. Fór efri hæð hússins illa í eldinum, en allt fólk slapp í bæði skiptin.
21. júní kom eldur upp á veitingastað í Keflavík og var einn maður fluttur á sjúkrahús vegna reykeitrunar.
Stórbruni varð 25. júní í íbúðahúsnæði við Bræðraborgarstíg í Reykjavík, en þar létust þrír og þrír til viðbótar slösuðust alvarlega. Sjö aðrir komust út úr húsinu eftir að eldurinn var kviknaður. Þau sem létust voru 24 ára kona, 21 árs karlmaður og 26 ára kona. Talið er að um íkveikju hafi verið að ræða og hefur karlmaður á sjötugsaldri verið ákærður fyrir íkveikju og manndráp í tengslum við brunann. Var málið þingfest í síðasta mánuði, en þar neitaði maðurinn sök. Málið vakti upp mikla umræðu um eldvarnir, breytingar á húsnæði og aðbúnað erlendra einstaklinga sem búa hér á landi.
Í ágúst kom svo upp eldsvoði í fjölbýlishúsi í Árskógum í Reykjavík. Var einn fluttur á slysadeild vegna brunans, en íbúðin var sögð gjörónýt, auk þess sem skemmdir urðu meðal annars á klæðningu á húsinu.
Í byrjun október kom eldur í iðnaðarhúsnæði á Skemmuvegi í Kópavogi. Engin slys urðu á fólki, en miklar skemmdir urðu á iðnaðarbilinu þar sem eldurinn kom upp og í nærliggjandi iðnaðarbilum.
Fyrir rúmlega viku síðan, 10. október var svo greint frá eldsvoða í húsbíl við Torfastaði í Grafningi í Árnessýslu. Lést karlmaður á fertugsaldri í brunanum
Síðan þá hefur verið greint frá eldi sem kom upp í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki og eldi í sem kom upp í íbúð við Samtún í Reykjavík. Var einn fluttur á slysadeild í kjölfarið.
Í dag var svo greint frá því að karlmaður hefði látist í eldsvoða í Borgarfirði í gær, en eldur kom upp í íbúðarhúsnæði sveitabæjar þar.