Ríkiskaup birtu um helgina auglýsingu í Morgunblaðinu fyrir hönd Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Þar kemur fram að ÁTVR vilji taka á leigu 450-550 fermetra húsnæði fyrir vínbúð í Reykjavík.
Húsnæðið skal vera á svæði sem afmarkast í grófum dráttum af Kringlumýrarbraut, Skipholti, Barónsstíg og Sæbraut. Á þessu svæði er nú þegar að finna vínbúð, sem staðsett er í Borgartúni 26. Sú verslun var opnuð í maí árið 2008.
Sigrún Ósk Sigurðardóttir aðstoðarforstjóri ÁTVR segir að núverandi leigusamningur fyrir vínbúðina í Borgartúni sé að renna út. „Við erum að leita að húsnæði fyrir vínbúð á svæðinu en erum ekki að bæta við búð,“ segir Sigrún. Ekki liggi fyrir á þessari stundu hvort leigusamningurinn verði mögulega endurnýjaður, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.