Atli Steinn Guðmundsson skrifar frá Ósló
„Þessi dómur er réttur, það er hafið yfir vafa og ég er sátt við niðurstöðuna,“ segir Mette Yvonne Larsen, réttargæslumaður brotaþola í Mehamn-málinu, í spjalli við mbl.is um 13 ára dóm yfir Gunnari Jóhanni Gunnarssyni í morgun.
„Elenu [Undeland, fyrrverandi kærustu Gísla Þórs] er létt yfir því sem hún telur einnig vera réttlátan dóm. Nú vonast hún bara til að geta lagt þetta hörmulega mál að baki sér, haldið áfram með líf sitt og einbeitt sér að börnunum sínum og sinni framtíð í Mehamn,“ segir Larsen.
Réttargæslulögmaðurinn, sem gegndi því sama hlutverki gagnvart fórnarlömbum fjöldamorðingjans Anders Behring Breivik árið 2011, reyndist sannspá þegar hún spáði því í viðtali við mbl.is, eftir að ákæra í málinu var gefin út í janúar, að búast mætti við minnst 13 ára dómi í málinu, en eftir atvikum allt að 15 árum.
„Hann [Gunnar Jóhann] segir að um slys hafi verið að ræða sem mér þykir býsna erfitt að leggja trúnað á,“ sagði Larsen þá, „að kalla það slys þegar þú kemur heim til [hálf]bróður þíns, reiður út í hann og með hlaðið skotvopn. Þá máttu einfaldlega reikna með því að eitthvað gerist. Þú kemur ekki með hlaðið skotvopn ef þú ætlar ekki að gera neitt,“ sagði lögmaðurinn enn fremur við mbl.is í janúar.