Húsnæði Landspítalans er afar þröngt og uppfyllir ekki nútímakröfur um sýkingavarnir í sumum tilfellum. Anna María Þórðardóttir, hjúkrunarfræðingur sem er í smitrakningarteymi spítalans, sagði að þrengsli í starfsmannarýmum ykju hættu á dreifingu smits milli starfsmanna.
„Samkvæmt tilmælum sóttvarnalæknis á fólk að halda tveggja metra fjarlægð ef það er ekki með grímu. Það er ekki framkvæmanlegt á kaffistofum spítalans en þangað þarf fólk að fara í neysluhléum á vinnutíma. Við höfum haft miklar áhyggjur af þessu. Hins vegar getum við ekki fullyrt að smit hafi borist á milli starfsmanna á kaffistofum en möguleikinn er sannarlega fyrir hendi,“ sagði Anna María.
Hættan á að smitast af nýju kórónuveirunni eykst eftir því sem fleiri koma saman, að sögn Jóhanns Björns Skúlasonar, yfirmanns smitrakningarteymis sóttvarnalæknis og almannavarna. Ef margmenni er á staðnum og einhver í hópnum er smitandi aukast líkurnar á smiti ef loftræsting er léleg og mikil nálægð á milli fólks, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.