Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tilkynnti í dag um 80 milljóna króna framlag Íslands til mannúðaraðstoðar í Búrkína Fasó, Malí og Níger, en þar er hungursneyð yfirvofandi.
Ríkin þrjú eru á svonefndu Mið-Sahelsvæði, en kórónuveirufaraldurinn hefur leikið þau grátt. Sérstök áheitaráðstefna Sameinuðu þjóðanna um svæðið fór fram í dag, og hélt Guðlaugur Þór ræðu í gegnum fjarfundarbúnað þar sem hann lagði áherslu á að Ísland muni halda áfram málsvarastarfi á sviði mannréttinda, að því er segir í fréttatilkynningu.
„Vopnuð átök, fátækt, skortur á uppbyggingu og loftslagsbreytingar hafa kallað miklar hörmungar yfir íbúa Mið-Sahel en líka mannréttabrot, afkomubrestur, fólksflótti, hungur og dauðsföll. Eins og við öll vitum hefur kórónuveirufaraldurinn svo bætt gráu ofan á svart,“ sagði ráðherra í ávarpi sínu. „Grípa þarf til víðtækra aðgerða á svæðinu.“
Framlag Íslands er til tveggja ára og skiptist jafnt á milli Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) en þær eru á meðal áherslustofnana Íslands á sviði mannúðarmála.
Neyðin í Mið-Sahel er talin ein sú versta í heiminum í dag. Hungursneyð blasir við íbúum svæðisins, fjöldi fólks er á flótta og kynferðislegt og kynbundið ofbeldi er alvarlegt vandamál.