Vilja breyta hóteli í hjúkrunarheimili

Sóltún öldrunarþjónusta hefur áhuga á að breyta Oddsson hóteli í …
Sóltún öldrunarþjónusta hefur áhuga á að breyta Oddsson hóteli í hjúrkunarheimili fyrir aldraða tímabundið.

Sóltún öldrunarþjónusta hefur boðið heilbrigðisráðuneytinu að reka Oddsson hótel sem tímabundna hjúkrunaraðstöðu fyrir aldraða. Þar myndi félagið taka á móti einstaklingum sem hægt er að útskrifa af Landspítalanum en komast ekki þaðan vegna skorts á úrræðum. Með því myndi léttast verulega það álag sem nú er á Landspítalanum, en Oddsson gæti tekið við allt að 77 einstaklingum í einstaklingsherbergi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sóltúni.

„Sóltún öldrunarþjónusta svarar þannig ákalli heilbrigðisráðuneytisins, sem sendi fyrir skömmu erindi á hjúkrunarheimili og óskaði eftir að þau leituðu leiða til að fjölga hjúkrunarrýmum. Félagið býðst til að reka aðstöðuna í Oddsson á meðan samfélagið vinnur úr því erfiða ástandi sem skapast hefur vegna Covid-19. Fyrstu rýmin gætu verið tilbúin í nóvember.

Oddsson hótel er í nýuppgerðu húsnæði við Grensásveg og ekki þarf að ráðast í miklar breytingar á sameiginlegu rými eða herbergisaðstöðu til að hægt sé að reka þar þjónustu fyrir aldraða. Covid-19 hefur gert það að verkum að lítil eftirspurn er eftir hótelrýmum sem stendur og því hefur myndast þetta tækifæri til að nýta hótelið til að leysa bráðavanda Landspítalans,“ segir í tilkynningu.

Sóltún öldrunarþjónusta er rekstraraðili hjúkrunarheimilisins Sólvangs í Hafnarfirði og heimahjúkrunarþjónustunnar Sóltún Heima. Félagið hefur jafnframt reynslu af uppsetningu og rekstri bráðabirgðahjúkrunarheimilis, því það opnaði og rak 30 bráðabirgðarými á síðasta ári sem stækkun við Sólvang á meðan beðið var eftir opnun nýs hjúkrunarheimilis á Sléttuvegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert