Þórir Barðdal, listamaður og stofnandi Lótushússins, lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 14. október síðastliðinn, á 62. aldursári.
Þórir fæddist í Reykjavík 31. október 1958 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru hjónin Óli Sigurjón Barðdal, f. 1917, d. 1983, eigandi Seglagerðarinnar Ægis, og Sesselja Engilráð Guðnadóttir Barðdal, f. 1920, d. 2017, sem lengi starfaði á saumastofu Seglagerðarinnar með Óla og fjölskyldunni.
Meðfram skóla vann Þórir á Seglagerðinni á sínum yngri árum. Hann fór snemma að læra myndlist.
Hann var lærður myndhöggvari, nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og við Listaakademíuna í Stuttgart í Þýskalandi árin 1981-1984. Hann starfaði um skeið við höggmyndalist í Houston í Texas í Bandaríkjunum og í Portúgal. Fluttist síðan aftur til Íslands árið 1996 og starfaði eftir það við höggmyndalist og legsteinagerð. Hann stofnaði steinsmiðjuna Sólsteina og flutti inn granít og marmara til að framleiða minnisvarða, legsteina, borðplötur og fleira. Þórir seldi sinn hlut í Sólsteinum 2006. Þá stofnaði hann Steinsmiðju Akureyrar árið 2011 og starfrækti fyrirtækið í sex ár, þegar nýir eigendur tóku við.
Þórir giftist Sigrúnu Olsen myndlistarkonu árið 1989. Sigrún lést árið 2018, 63 ára að aldri. Unnu þau alla tíð náið saman að andlegum hugðarefnum og héldu margar myndlistarsýningar hér á landi og erlendis, bæði einka- og samsýningar. Þau stofnuðu saman hugleiðsluskólann Lótushúsið, sem hefur hjálpað þúsundum landsmanna við að takast á við streitu og áskoranir líðandi stundar. Þá stóðu þau hjónin fyrir Heilsubótardögum á Reykhólum í mörg sumur, sem voru vel sóttir.
Dóttir Þóris er Sara Barðdal, hennar eiginmaður er Hákon Víðir Haraldsson. Synir þeirra eru Alexander Úlfur, sjö ára, og Baltasar Máni, fjögurra ára.
Útför Þóris fer fram í kyrrþey, með nánustu aðstandendum og vinum.