Ferðamálastefna Reykjavíkurborgar samþykkt

Í ferðamálastefnu borgarinnar er lögð áhersla á undirbúning ferðaþjónustunnar fyrir …
Í ferðamálastefnu borgarinnar er lögð áhersla á undirbúning ferðaþjónustunnar fyrir vaxandi fjölda ferðamanna eftir kórónuveirufaraldurinn. mbl.is/Árni Sæberg

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í gær ferðamálastefnu borgarinnar til næstu fimm ára. Ferðamálastefnunni er ætlað „að vera leiðarljós Reykjavíkurborgar í því hvernig hún hyggst þróast áfram sem áfangastaður ferðamanna og mæta þörfum ferðaþjónustu og íbúa“.

 „Við þurfum að sjá fram úr kófinu og vera tilbúin þegar ferðamennirnir fara aftur á stjá,“ segir Þórdís Lóa, formaður borgarráðs sem jafnframt leiddi vinnu stýrihópsins, í fréttatilkynningu. „Þess vegna er svo mikilvægt núna að samþykkja ferðamálastefnuna svo við látum ekki vaxandi fjölda ferðamanna koma okkur aftur að óvörum. Við þurfum að vera undirbúin og vita hvers konar Reykjavík við viljum kynna fyrir gestum í góðri sátt við borgarbúa“.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir (önnur frá vinstri) leiddi vinnu stýrihópsins.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir (önnur frá vinstri) leiddi vinnu stýrihópsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vinna við nýja stefnu hófst árið 2018 og fól í sér stöðugreiningu og djúpviðtöl við helstu hagsmunaaðila, vinnustofur og opna vinnufundi með fulltrúum sveitarfélaga og ferðaþjónustu ásamt íbúum borgarinnar. Leiðarljósið við mótun stefnunnar var að halda jafnvægi á milli þarfa ferðaþjónustunnar og sjónarmiða og þarfa íbúa borgarinnar.

Nálgast má stefnuna í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert