Gagnrýnir móðurhreyfinguna harðlega

Ástþór Jón Ragnheiðarson er varaformaður ASÍ-UNG.
Ástþór Jón Ragnheiðarson er varaformaður ASÍ-UNG. Ljósmynd/ASÍ

„Það að ASÍ taki þátt í aðgerðum sem hentar forréttinda- og hálaunafólki vel, í nafni jafnréttis og á kostnað þeirra sem minna mega sín, er með öllu óásættanlegt,“ segir Ástþór Jón Ragnheiðarson, varaformaður ASÍ-UNG. Ræðu hans á þingi ASÍ í dag má lesa hér.

Hann gagnrýnir þar harðlega þátttöku móðursamtakanna, Alþýðusambands Íslands, í samningu frumvarps til breytingar á lögum um fæðingarorlof.

Þar eru lagðar til margvíslegar breytingar á fæðingarorlofslöggjöfinni, meðal annars að fæðingarorlofið verði lengt í 12 mánuði og þeim skipt jafnt á milli foreldra. 

Hentar þar sem fyrir eru góðir sjóðir

„Fljótt á litið er þetta flott, þarna er verið að auka jafnrétti kynjanna með jafnri skiptingu. En þegar betur er að gáð þá koma ýmsir vankantar í ljós. Jafnrétti er nefnilega mikilvægt, en velferð barnsins á ávallt að vera í forgrunni. 

Velferð barns, jafnréttissjónarmið og þar eftir götum, eru ekki höfð í fyrirrúmi, þrátt fyrir tilraunir til þess að láta okkur halda það,“ segir Ástþór.

Staðreyndirnar séu einfaldlega þær að tökutími fari úr 24 mánuðum niður í 18 og að einstæðar mæður fái styttra orlof, þ.e. sjö mánuði en ekki tólf. Þar með segir Ástþór að breytingarnar henti tekjumiklu fólki sem þoli skerta innkomu í nokkurn tíma, þar sem fyrir eru góðir sjóðir.

Sparnaðaraðgerð

„Þetta er akkurat ekkert annað en sparnaðaraðgerð, færri koma til með að fullnýta rétt sinn. Einstæðar mæður fá minna og feður munu taka orlof, því miður blasir það við.“

Ástþór segir að ASÍ eigi að vera málsvari jaðarsettra hópa en ekki forréttindahópa. „Þetta eru skilaboðin frá unga fólkinu í hreyfingunni, í þessu máli sem svo sannarlega varðar okkur. Ekkert um okkur án okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert