„Hver veit?“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, mælir fyrir frumvarpi að nýrri …
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, mælir fyrir frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Eggert Jóhannesson

Allur þingflokkur Pírata og þingflokkur Samfylkingar ásamt Andrési Inga Jónssyni og Rósu Björk Brynjólfsdóttur, þingmönnum utan flokka, eru flutningsmenn frumvarps sem mælt verður fyrir á þingfundi í dag, þar sem lagt er til að samþykkt verði ný stjórnarskrá fyrir lýðveldið.

Frumvarpið er samhljóða tillögum stjórnlagaráðs eins og þær tóku á sig mynd í meðförum þingsins árið 2012 og er hér því um að ræða það sem talað er um sem „nýju stjórnarskrána“ í daglegu tali.

„Þetta tvennt fer ekki saman“

Frumvarpið hefur verið lagt fram tvisvar á þessu kjörtímabili og ekki hlotið framgang. Frekar en að vonir flutningsmanna standi til að svo verði í þetta skiptið er markmiðið að sögn Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, sem mælir fyrir frumvarpinu, að sýna hvar hugur flokkanna sem leggja þetta til stendur.

„Þetta sýnir að við höfum sterka lýðræðisvitund og sömuleiðis Samfylkingin, Andrés Ingi og Rósa Björk. Með þessu erum við að bjóða öðrum flokkum að virða lýðræðislegan vilja þjóðarinnar. Við getum ekki kallað okkur lýðræðisríki og hunsað þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta tvennt fer ekki saman,“ segir Þórhildur Sunna í samtali við mbl.is og vísar þar til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012, þar sem samþykkt var að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá.

Hún útilokar síðan ekki að hugur alþingismanna gagnvart málinu hafi breyst undanfarið: „Mögulega hafa 43.423 undirskriftir haft einhver áhrif á stjórnarheimilinu. Hver veit?“

Katrín Oddsdóttir afhendir Katrínu Jakobsdóttur rúmar 40.000 undirskriftirnar á Austurvelli …
Katrín Oddsdóttir afhendir Katrínu Jakobsdóttur rúmar 40.000 undirskriftirnar á Austurvelli í gær. Kristinn Magnússon



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka