Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur nú til skoðunar merki sem lögregluþjónn við skyldustörf bar á fatnaði sínum.
Merkin vöktu athygli eftir að frétt var birt í morgun á mbl.is, en mynd af lögregluþjóninum fylgdi fréttinni. Var um að ræða mynd úr safni sem tekin var í mars árið 2018, en lögregluþjónninn er þar við skyldustörf.
Merkin eru þrjú og virðast vera; íslensk útgáfa af svokölluðum „thin blue line“-fána sem er í svarthvítu fyrir utan bláa línu í gegnum fánann miðjan, dökkleit útgáfa af íslenska fánanum með stöfunum IS í hægra horninu og svokallaður „Vínlandsfáni“.
Fyrsti fáninn hefur verið áberandi víða um heim undanfarin ár og vísaði bláa línan til löggæslunnar í samfélaginu sem væri lína á milli laga og reglu og stjórnleysis. Hefur bláa línan oftast verið sett fram sem blátt strik þvert yfir mismunandi þjóðfána, en þjóðfánarnir eru í svarthvítu. Á síðustu árum hefur notkun fánans hins vegar verið umtöluð og hafa lögregluyfirvöld á nokkrum stöðum bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum þurft að skipa undirmönnum sínum að fjarlægja slíkar merkingar. Þannig hefur fáninn meðal annars þótt taka pólitíska afstöðu með „blue lives matter“-hreyfingunni gegn „black lives matter“-hreyfingunni og þannig hefur fáninn verið tengdur við hvíta þjóðernishyggju.
Fyrsti og annar fáninn hafa vakið spurningar hvort þar sé verið að brjóta lög um þjóðfána Íslendinga, en þar segir meðal annars að engin merki megi nota í þjóðfánanum önnur en sérstaklega eru tilgreind, en það eru meðal annars fáni forseta Íslands og tollgæslufáninn. Þá er einnig óheimilt að nota þjóðfánann sem einkamerki einstaklinga, félaga eða stofnana. Fánarnir tveir eru þó ekki í réttum litum miðað við íslenska þjóðfánann, en IS-merking bendir til þess að um eigi að vera að ræða íslenska fánann. Þess má geta að lögreglunni ber að hafa eftirlit með að fánalögum sé framfylgt.
Þriðji fáninn, svokallaður Vínlandsfáni, var fyrst notaður af ameríska metalbandinu Type O Negative, en litirnir táknuðu pólitískar skoðanir söngvarans, meðal annars varðandi sósíalisma og náttúru. Síðar tóku ýmsir hópar hægri öfgamanna að notast við fánann og hefur hann verið tengdur við slíka hópa og hatursorðræðu síðustu ár.
Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, kynningarfulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að lögreglan hafi orðið myndarinnar vart fyrst í dag eftir að Sævar Guðmundsson deildi henni á Twitter og spurði hvaða reglur giltu um notkun merkja sem þessara á grunni íslenska fánans.
Lögreglan svarði Sævari á Twitter og sagði að embættið styddi ekki „með neinum hætti hatursorðræðu eða merki sem ýta undir slíkt. Lögreglumenn eiga ekki að bera nein merki sem ekki eru viðurkennd á lögreglubúningi og hefur það þegar verið ítrekað við allt okkar starfsfólk og verður því fylgt eftir.“
Í samtali við mbl.is segir Gunnar að umræddur starfsmaður sé við störf hjá embættinu og að málið sé litið alvarlegum augum. Það verði tekið fyrir, en að svo stöddu geti hann ekki tjáð sig um það.
Merkin sem sjást virðast vera í innanundirfatnaði hjá lögregluþjóninum, en lögreglan útvegar lögregluþjónum jafnan allan þann fatnað sem þeir klæðast, utan nærfatnaðar.