Stal, laug og rauf sóttkví

mbl.is/Eggert

Tilkynnt var um þjófnað í verslun við Álfheima í Vogahverfinu á ellefta tímanum í gærkvöldi en þar hafði maður sem komist undan á reiðhjóli grunaður um þjófnað á matvöru. Lögreglan handtók manninn skömmu síðar. Hann gaf lögreglu ítrekað upp ranga kennitölu en hann er einnig grunaður um brot á sóttvarnarlögum þar sem hann á að vera í sóttkví. Maðurinn er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Töluvert var um tilkynningar um þjófnaði og innbrot á kvöld og næturvakt lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Á sjöunda tímanum í gær var tilkynnt um hnupl í verslun í Austurbænum (hverfi 105) en starfsmaður kom að búðarþjófnum og stöðvaði hann.  Sjúkrabifreið var send á vettvang vegna áverka sem þjófurinn hlaut frá starfsmanni verslunarinnar en áverkarnir reyndust minni háttar. Aftur á móti var ástand mannsins ekki gott vegna áfengis og fíkniefnaneyslu.

Fjórir menn voru handteknir á fimmta tímanum í nótt grunaðir um innbrot í fyrirtæki við Ármúla (hverfi 108). Þeir eru vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Kona var staðin að búðarhnupli í verslun á Granda á tíunda tímanum í gærkvöldi. Lögregla kom á vettvang og var vettvangsskýrsla rituð.

 Síðdegis í gær var farið í fokhelt hús í hverfi 113 (Grafarholt og Úlfarsárdal) og stolið verðmætum og um kvöldmatarleytið var tilkynnt um innbrot í geymslu í Mosfellsbænum. Þar hafði lás verið brotinn, farið inn og stolið sjónvarpi, fartölvu ofl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka