Fann djúp för eftir utanvegaakstur

Djúp för og tættur mosi liggja eftir utanvegaakstur á Reykjanesskaga.
Djúp för og tættur mosi liggja eftir utanvegaakstur á Reykjanesskaga. Ljósmynd/Aron Styrmir Sigurðsson

Djúp för eru eftir bílaumferð á mosagrónu svæði austan Fíflavallafjalls á Reykjanesskaga, ekki langt frá upptökum jarðskjálftans stóra sem reið yfir suðvesturhornið á þriðjudaginn.

Aron Styrmir Sigurðsson átti leið um svæðið eftir skjálftann á þriðjudaginn þegar hann rakst á þessa óskemmtilegu sýn. Hann segist hafa fundið skemmdirnar vestan gönguleiðarinnar Hrauntungustígs, en væntanlega hefur gerandi keyrt eftir Vigdísarvallavegi, og svo út af honum.

„Það er verið að keyra eftir þessari þjóðleið, og svo þvert á hana. Það er ekki verið að fara einu sinni eða tvisvar, heldur er verið að hjakka hann alltaf í sama farinu,“ segir Aron Styrmir í samtali við mbl.is.

Utanvegaakstur vandamál á svæðinu

Daníel Freyr Jónsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að mikið sé um utanvegaakstur á svæðinu og að stofnunin viti af því.

„Þetta virðast vera ný og slæm för, en þarna er töluvert um gamla slóða og sennilegt að förin séu í einum slíkum,“ segir Daníel í svari við fyrirspurn blaðamanns. „Á þessu svæði vitum við af miklum förum eftir utanvegaakstur og óhætt að segja að þetta fagra, mosavaxna hraun hafi fengið að líða fyrir það.“

Með stöðugu róti fær mosinn á svæðinu ekki tækifæri til …
Með stöðugu róti fær mosinn á svæðinu ekki tækifæri til að gróa aftur. Ljósmynd/Aron Styrmir Sigurðsson

Hann segir ekki alltaf augljóst hvort um ólöglegan utanvegaakstur sé að ræða. „Djúpavatnsleið liggur þarna um svæðið og fyrir utan þann veg er fátt um skilgreinda vegi á svæðinu samkvæmt aðalskipulagi Grindavíkurbæjar. Almennt er það þannig að allur akstur utan vega er bannaður, en frá því eru þó nokkrar undantekningar sem snúa að ákveðinni starfssemi.“ Daníel segir slíkar undantekningar eiga við um t.d. landbúnaðarstörf eða rannsóknarvinnu.

En þrátt fyrir að heimild sé til staðar fyrir akstri utan vega þá er ökumönnum „alltaf skylt að gæta varúðar og forðast að valda náttúruspjöllum, sem virðist hafa verið ábótavant í þessu tilfelli,“ að sögn Daníels.

Langt í að mosinn grói aftur

„Það er augljóst að gróðurskemmdirnar sem sjást á þessum myndum munu taka langan tíma að jafna sig ef ekki verður sérstaklega gripið inn og unnið að endurheimt og lokað fyrir frekari akstur eftir þessum förum,“ segir Daníel.

Hann segir þó erfitt að fara lengra með málið, þar sem óvíst er hvenær förin mynduðust, eða hver var þar að verki, en minnir á að Umhverfisstofnun tekur við ábendingum og öðru sem snýr að meintum akstri utan vega, og vísar þeim til lögreglu ef tilefni er til.

Sektir fyrir náttúruspjöll vegna aksturs utan vega geta hlaupið á hundruðum þúsunda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka