„Við erum klár í bátana og búin að vera það lengi,“ segir Teitur Guðmundsson framkvæmdastjóri Heilsuverndar, en sem kunnugt er sendi Heilsuvernd þann 27. September Sjúkratryggingum beiðni um kaup á heilbrigðisþjónustu. Þá bauð fyrirtækið 100 hjúkrunar- og endurhæfingarrými til að létta á Landspítala með svonefndan fráflæðisvanda en fjöldi sjúklinga á Landspítala eru einmitt búnir með sína meðferð og bíða útskriftar, bíða eftir því að komast að á hjúkrunarheimilum eða varanlegu úrræði.
Félagið hefur nokkra möguleika og er beiðnin skilgreind þannig til Sjúkratrygginga, bæði með það fyrir augum að leysa vandann hratt, en einnig til framtíðar litið.
„Við höfum unnið mjög þétt með þeim sem eiga Urðarhvarf 8 í Kópavoginum. Þar er auðvitað aðstaða sem er frábær til þess að leysa þennan vanda til frambúðar. Þar eru sterkir innviðir til staðar svosem eins og myndgreining og rekstur annarrar heilbrigðisþjónustueininga auk apóteks. Það eru auðvitað engin sérhönnuð rými til í dag neins staðar fyrir slíkt úrræði sem þetta en í þessu húsnæði værum við að tala um fáeina mánuði í fullbúna lausn,“ segir Teitur.
Fjölmörg hótelherbergi standa auð þessa dagana og jafnvel heilu hótelin þar sem kórónuveirufaraldurinn hefur takmarkað ferðir fólks á milli landa. Skammtímaúrræðin sem Heilsuvernd gæti boðið upp á mjög fljótlega væru innan hótela og hefur það þegar verið rætt við Sjúkratryggingar.
„Það er flókið og erfitt að eiga við hótelrými og breyta þeim þannig að þau henti slíkum rekstri sem þessum, bæði stærðir herbergja, baðherbergisaðstaða, möguleiki á sjúkra- og iðjuþjálfun og ekki síst gott aðgengi eru lykilatriði. En þetta er hægt til skamms tíma og við erum búin að fara í gegnum það og taka það út. Við höfum um nokkurt skeið verið í samskiptum við Icelandair Hotels og unnið okkur áfram með lausn á skyndivandanum og gætum opnað á Natura mjög hratt, en upprunalega hugmyndin var að vera einmitt að opna með þeim núna í október þannig að við getum verið býsna snögg,“ segir Teitur.
Þá hefur félagið einnig verið í samskiptum við Bændasamtökin og skoðað það að nýta Hótel Sögu, en slíkt myndi fela í sér góða langtímalausn á margan hátt og nýtast afar vel, að sögn Teits.
Heilsuvernd hefur talsverða reynslu af því að sinna íbúum hjúkrunarheimila en undanfarin ár hefur fyrirtækið sinnt læknisþjónustu fyrir um 750 pláss í þjónustu hjúkrunarheimila í hjá Hrafnistu og Vigdísarholti sem rekur Sunnuhlíð og Seltjörn.
„Við höfðum lagt fram áður í samstarfi við Hrafnistu lausn á þessum málum og erum í góðu sambandi svo við höfum ekki neinar áhyggjur af því að geta ekki leyst þetta vel úr hendi líkt og við gerum daglega. Þannig að við teljum okkur hafa fullt erindi þarna og erum vel í stakk búin til að takast á við verkefnið,“ segir Teitur.
Þá bendir hann á að rekstur heilsugæslu í Urðarhvarfi sé á hans vegum og á samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Heilsuvernd sé eitt fárra fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu sem sé með það skrifað í samning að ekki megi greiða út arð til eigenda.
„Við teljum að allt geti smollið saman en þá er auðvitað nauðsynlegt að menn vilji það og það þarf að setja í það fjármagn,“ segir Teitur.
„Við höfum verið í samskiptum við Sjúkratryggingar og verið að bíða eftir því að vita hvað ríkið vill gera, en eigum von á fundi með heilbrigðisráðuneytinu. Þau vilja vafalítið flýta þessu eins og hefur komið fram. Við fórum hina formlegu leið til Sjúkratrygginga sem á að sjá um kaup á heilbrigðisþjónustu og það þarf að taka afstöðu til beiðninnar, eðlilega.“
Þrátt fyrir að skammtímaúrræði komi nú til greina segir Teitur að Heilsuvernd vilji helst að um sé að ræða langtímaúrræði.
„Við höfum lagt áherslu á það að úrræðið verði að vera langtímaúrræði, þjónustan sé góð, aðbúnaður og endurhæfing sé trygg og uppfylli væntingar bæði skjólstæðinga, ættingja þeirra og að sjálfsögðu hins opinbera. Það þarf að horfa til framtíðar, vandinn er að stækka og við höfum bent á það lengi.“
Þá segir Teitur að mönnun sé ekki vandamál, nýlega hafi á annað hundrað manns sótt um vinnu í aðhlynningu svo dæmi sé tekið. „Þetta er mannfrekt verkefni og ástandið í dag er með þeim hætti að atvinnuleysi er talsvert. Læknamönnun er trygg og við erum ekki í neinum vanda teljum við að manna þetta verkefni, nema síður sé.“
Teitur bendir á að engin opnun hjúkrunarrýma sé á næsta leiti, Hrafnista opnaði Sléttuveg á methraða í vor og svo opnaði Seltjörn einnig mjög hratt þannig að reynslan af því sé til staðar en félagið sinnir læknisþjónustu við bæði heimili eins og fram hefur komið.