Arinbjörn Snorrason, formaður Lögreglufélagsins í Reykjavík, segist nánast geta fullyrt að enginn lögreglumaður setji upp barmmerki, vitandi það að þau tákni kynþáttahatur eða annað slíkt. Hann segir að umræða um þessi mál séu af hinu góða, en að það sé af og frá að lögreglumenn á Íslandi séu talsmenn einhverrar hatursorðræðu.
Hann segir að eðlilegt væri að forsætisnefnd tæki það upp við siðanefnd Alþingis að ræða ummæli Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, um málið.
„Ég fullyrði nánast að enginn lögreglumaður ber svona merki, vitandi það að þau þýði eitthvað í ætt við kynþáttafordóma eða annað slíkt,“ segir Arinbjörn í samtali við mbl.is
„Umræða um þessi mál er af hinu góða, en fólk er margt fljótt að grípa umræðuna þannig að lögreglumenn styðji þessa hluti. Það er af og frá.“
Arinbjörn segir að bláa línan sem sáust á barmerkjum lögreglukonu við skyldustörf tákni stuðning við fólk í framlínunni.
„Til eru alls konar svona barmmerki og það tíðkast eitthvað að lögreglumenn skiptist á þeim. Sér í lagi fá lögreglumenn sem fara erlendis að kynna sér störf lögreglunnar þar svona barmmerki að gjöf. Við erum til dæmis með svona peninga sem við gefum, það eru þó ekki heiðurspeningar eins og komið hefur fram heldur eru þetta gjafir.“
Arinbjörn segir að peningar lögreglunnar með blárri línu séu bara ein gerð peninga sem félög innan lögreglunar gefi. Til að mynda eru til peningar sem golfsamband lögreglunnar veitir og peningar um íþróttasamstarf á Norðurlöndunum.
Arinbjörn segir að umræðan um barmmerkin séu af hinu góða. Hins vegar megi umræðan ekki leiðast á villigötur.
„Ég get alveg tekið undir það að svona uppákomur hjá lögreglufólki séu óheppilegar. Hins vegar er framkoma ákveðins þingmanns líka heldur óheppileg.“
Þar vísar Arinbjörn til orða Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, sem sagði á Alþingi í gær að hún vildi að fulltrúar lögreglunnar kæmu á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis til þess að ræða kynþáttahyggju innan lögreglunnar. Arinbjörn vill að siðanefnd Alþingis taki ummæli hennar um lögregluna fyrir.
„Þegar ég gagnrýni orð Þórhildar má ekki skilja það þannig að ég sé með einhverjum hætti að samþykkja kynþáttafordóma. Það er af og frá – persónulega er ég mikill andstæðingur slíks.“
„Ég teldi eðlilegt að forsætisnefnd virkjaði siðanefnd Alþingis í því að taka ummæli Þórhildar Sunnu til skoðunar.“