Smit á Landakotsspítala

Landakotsspítali.
Landakotsspítali. mbl.is/Golli

Kórónaveirusmit hefur greinst hjá nokkrum starfsmönnum og einum sjúklingi á öldrunardeild á Landakotsspítala. Anna Sigrún Baldursdóttir aðstoðarmaður forstjóra segir tveimur deildum af fjórum hafa verið lokað og að verið sé að skima alla starfsmenn og stóran hluta sjúklinga. 

Smitið greindist síðdegis í gær en 31 sjúklingur af 58 er í sóttkví. Búið er að setja á  heimsóknarbann á meðan aðgerðir fara fram. Allir verða skimaðir að nýju að viku liðinni. Ekki liggur fyrir hvar fyrsta smitið kom upp en smitrakning er í gangi innan spítalans. 

Að sögn Önnu eru um 100 starfsmenn sem fara í skimun og 31 sjúklingur. Aðrir sjúklingar á þeim deildum þar sem ekki hefur komið upp smit verða skimaðir ef upp kemst um smit hjá starfsmanni sem hefur sinnt þeim deildum. Það mun koma í ljós síðar í dag. 

Allir starfsmenn eru í úrvinnslusóttkví og annað starfsfólk hefur komið í staðinn.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert