Íbúar sem mæla á móti lagningu Arnarnesvegar um Vatnsendahvarf telja að aðstæður hafi breyst svo mikið á þeim fjörutíu árum sem vegurinn hefur verið í umræðunni og frá því umhverfisáhrifin voru metin að nauðsynlegt sé að gera nýtt umhverfismat. Reykjavíkurborg hefur ekki tekið undir þessi sjónarmið.
Íbúarnir hafa með sér óformleg samtök og hóp á Facebook sem nefndur er Vinir Vatnsendahvarfs og er með um 300 fylgjendur.
Bent er á að upphaflega hafi vegurinn verið kallaður Ofanbyggðarvegur. Hópur íbúa, ekki síst í efsta hluta Seljahverfis í Reykjavík, hefur mótmælt þessum áformum á öllum stigum skipulags og undirbúnings framkvæmda í þessi 40 ár.
Helga Kristín Gunnarsdóttir, úr hópnum Vinir Vatnsendahvarfs, segir að margt hafi breyst á þeim átján árum sem liðin eru frá því gert var umhverfismat sem grundvallaðist á mislægum gatnamótum. Nefnir hún að umferðarspá geri nú ráð fyrir mun meiri umferð. Byggð hafi færst nær vegstæðinu, nýjar götur bæst við og Vetrargarður í Seljahverfi ekki verið kominn á áætlun. Áhersla á aðra samgöngumáta hafi aukist. Þá hafi græna svæðið verið að gróa upp, tré séu farin að vaxa þar, og það sé orðið mikilvægt útivistarsvæði, í framhaldi af Elliðaárdalnum, og þyrfti að friða. Hún segir að íbúarnir geti ekki krafist nýs umhverfismats. Reykjavíkurborg hafi hafnað því með pólitískri ákvörðun.