Skýrsla um fyrstu skref að óháðri úttekt á framkvæmd og nýtingu Landeyjahafnar hefur verið gefin út og afhent samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að til að minnka verulega dýpkunarþörf þarf að ákvarða mögulegt dýpkunarfyrirkomulag sem tekur tillit til nýju ferjunnar og þeirrar reynslu sem fengist hefur á nýtingu hafnarinnar. Slíkt fyrirkomulag væri borið saman við dýpkunaraðgerðir hingað til, sem miðast við fyrri ferju, svo meta megi hvort dýpkunarþörf sé líkleg til að minnka.
Ráðgjafafyrirtækið Vatnaskil vann skýrsluna í samvinnu við Leo van Rijn, hollenskan sérfræðing á sviði sandflutningsrannsókna, og verkfræðistofuna Mannvit. Úttektin var unnin í samræmi við þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi í desember 2019. Skýrslan hefur verið send í umsögn og er miðað við að ákvarðanir um næstu skref verði teknar þegar yfirferð skýrslunnar er lokið.
Í úttektinni var farið yfir fyrirliggjandi gögn um Landeyjahöfn, en skýrsluhöfundar segja að tekist hafi „að ná utan um helstu gögn sem höfninni tengjast og skilgreina helstu þætti sem upp á vantar og þarf að ráða bót á í úttektarferlinu.“ Skýrsluhöfundar telja úttektina gefa fyrirheit um mögulega kosti að ferli loknu til grundvallar ákvarðanatöku um framtíðaráform fyrir samgöngubætur milli lands og Eyja.
Höfundar skýrslunnar komast að þeirri niðurstöðu að til að ná markmiðum um stóraukna nýtingu hennar sé þörf á endurbótum á höfninni. Mótvægisaðgerðir hafi ekki dugað hingað til og ætla má að erfitt sjólag utan hafnar muni áfram takmarka siglingar nýrrar ferju. Í skýrslunni eru kynntar ráðleggingar fyrir mat á mögulegum endurbótum á höfninni og vegvísir að heildstæðri óháðri úttekt á Landeyjahöfn, sem gerir ráð fyrir tæknilegu mati og kostnaðarmati á mögulegum endurbótum.