Alls voru staðfest 76 ný smit innanlands í gær og hafa þau ekki verið jafn mörg síðan 15. október. Alls voru tekin um 1.400 sýni innanlands en 457 á landamærunum.
Af þeim sem greindust með Covid-19 í gær voru 79% í sóttkví en 16 einstaklingar voru utan sóttkvíar. Nú eru í 1.081 í einangrun og í 1.979 sóttkví. Jafnframt eru 1388 í skimunarsóttkví.
Nú er nýgengi smita innanlands á hverja 100 þúsund íbúa síðustu14 daga 227,7 en á landamærunum 23,2. Þrjú virk smit greindust á landamærunum í gær og beðið er niðurstöðu mótefnamælingu í einu tilviki.
Líkt og fyrr eru smitin flest í aldurshópnum 18-29 ára eða 322. Sjö börn yngri en eins árs eru í einangrun, 31 barn á aldrinum 1-5 ára eru í einangrun og 84 börn 6-12 ára. 59 börn á aldrinum 13-17 ára er með Covid-19 í dag þannig að alls er 181 barn smitað af kórónuveirunni í dag.
Á fertugsaldri eru smitin nú 169 talsins en í aldurshópnum 40-49 ára eru þau 149. Á sextugsaldri eru 118 með Covid og á sjötugsaldri eru þeir 77 talsins. 40 eru með Covid á aldrinum 70-79, 21 á aldrinum 80-89 ára og fjórir sjúklingar eru yfir nírætt.
Á höfuðborgarsvæðinu eru 879 í einangrun og 1.586 eru í sóttkví. Á Suðurnesjum eru 60 smitaðir en 131 í sóttkví. Á Suðurlandi eru 55 smit en 77 í sóttkví. Á Norðurlandi eystra eru 44 smit og 85 í sóttkví. Á Vestfjörðum eru 15 smit og 12 í sóttkví og á Vesturlandi eru 23 smit og 64 í sóttkví. Óstaðsettir í hús eru 5 smit og 20 í sóttkví.
Ekkert smit er á Austurlandi en þar eru 2 í sóttkví. Á Norðurlandi vestra er heldur ekkert smit en 2 í sóttkví.