Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar og formaður farsóttarnefndar Landspítala, segir að umfangsmikil smitrakning sé í gangi vegna klasasmits á Landakoti og í dag hafa greinst samtals 49 sjúklingar og 29 starfsmenn Landakots, Reykjalundar og á hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka. Samtals 77 einstaklingar sem tengjast þessu hópsmiti segir Már.
Þetta kom fram á blaðamannafundi Landspítalans en spítalinn er kominn á neyðarstig. Þetta er í fyrsta skipti sem spítalinn fer á neyðarstig frá því kórónuveirufaraldurinn braust út.
Síðastliðinn fimmtudag, 22. október, kom upp smit í okkar viðkvæmasta hópi og við settum í gang umfangsmikið viðbragð við að kortleggja og rekja hugsanlegt smit, segir Már. Hann segir að frá því síðdegis á fimmtudag hafi sú rakning staðið yfir og í dag hafa greinst 49 sjúklingar samtals tengt þessum atburði og 28 starfsmenn á Landakoti, Reykjalund og Sólvelli.
„Ekki nóg með það hefur þessi atburður sett 250 starfsmenn í sóttkví og að auki eru 25 sjúklingar í sóttkví. Þannig að þetta setur þungar kvaðir á okkar viðkvæma kerfi. En við erum engu að síður ekki bjargarlaus og höfum úr mörgu að spila enn þá. Bæði varnarbúningi starfsmanna og lyf höfum við næg ennþá. En inni á spítalanum eru þá 52 einstaklingar með virkt smit og þar af 20 á Landakoti,“ segir Már.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að ákveðið hafi verið að setja spítalann á neyðarstig og það er í raun í fyrsta skipti síðan viðbragðsáætlun var samþykkt árið 2006.
Klasasmitið hefur dreifst víða bæði innan og utan spítalans og margir að veikjast mikið. Mjög alvarlegt og við þetta stöðvast útskriftir gamals fólks af spítalanum segir Páll.
Már segir að þetta setji þungar kvaðir á viðkvæmt kerfi. Smitið var fyrst greint 22. október og hefur skoðun leitt í ljós að í kringum 12. október hafi starfsmenn borið smit inn á Landakot og það er sennilega orsök þessa hópsmits. Það sé í rauninni orsök þessa. Það þýðir í rauninni að einstaklingar sem hafa verið útskrifaðir frá Landakoti frá 12. til 22. hafa getað borið smit sem inn á aðrar stofnanir og það hafi gerst, segir Már og vísar þar til Reykjalundar og Sólvalla.
Páll segir að vel hafi gengið á Landspítalanum í þriðju bylgju faraldursins og svo vel að stefnt hafi verið að því að auka fjölda valkvæðra aðgerða á spítalanum.
Að sögn Páls hefur klasasmitið, sem kom í ljós á Landakoti 22. október, dreifst víða, bæði innan og utan spítalans.
„Smitstuðullinn er greinilega mjög hár þarna og fólk verið að veikjast í þessum sjúklingahópi. Þannig að þetta kom aftan að okkur. Jafnframt í raun stöðvast að mestu útskriftir eldra fólks. Sem er mjög alvarlegt. Það er því mikilvægt að setja spítalann í, ef svo má segja, í fimmta gír, í efsta viðbragð til að glíma við þetta,” segir Páll.
Með neyðarstigi sé hægt færa sjúklinga til sem þarf og virkja stuðning alls heilbrigðiskerfisins. Verkefnið snúist um að verja getu spítalans til að sinna þeim sem eru veikastir af Covid-19, að ná utan um núverandi smit þannig að fleiri smitist ekki og að standa vörð utan um grundvallarhlutverk spítalans sem sérhæfðs sjúkrahúss fyrir öll önnur vandamál.
„Því miður hefur það nú gerst sem við óttuðumst mest og það sem mörg önnur samfélög hafa þurft að glíma við, að sýking blossi upp í okkar viðkvæmustu hópum. Það þarf samtakamátt okkar allra til að taka á þessu,“ segir forstjóri Landspítalans.
Neyðarstig þýðir að allur fókus spítalans fer á viðbrögð við þessari vá og við þurfum alla heilbrigðisþjónustu og allt samfélagið með okkur segir Páll.
„Þetta er reiðarslag. Veiki hlekkurinn er eins og áður, mönnun heilbrigðisstétta og hjúkrunarrými og við verðum öll að hlaupa á margföldum hraða til að takast á við þessa áskorun og bæta fyrir veiku hlekkina næstu vikurnar. Og við munum gera það. Með samstilltu átaki þá náum við því, sagði Páll á blaðamannafundi vegna ákvörðunar um að setja Landspítalann á neyðarstig.