Dánaraðstoð hefur ekki verið lögleidd víða, en á nokkrum stöðum er þó komin reynsla á hana. Hollendingar riðu á vaðið í Evrópu, þá komu Belgar og síðan Sviss. Arnar Vilhjálmur Arnarsson lögmaður segir í grein í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins að í þessum löndum hafi nálgunin verið ólík, en hafa verði reynslu annarra þjóða í huga eigi að lögleiða dánaraðstoð á Íslandi.
Hollendingar riðu á vaðið og lögleiddu dánaraðstoð fyrstir þjóða árið 2002. Þá var réttur sjúklings til að óska dánaraðstoðar lögleiddur, en ekki lögfest skylda lækna til að veita hana. Belgar komu næstir síðar sama ár. Ólíkt Hollendingum ákváðu Belgar þó að lögleiða aðeins beina dánaraðstoð, en ekki læknisaðstoð við sjálfsvíg.
Í Sviss er bein dánaraðstoð ólögleg, öfugt við Belgíu og Holland, en hins vegar löglegt að aðstoða annan við sjálfvíg og er það undanskilið refsingu í hegningarlögum að því skildu að eigingjarnar hvatir liggi ekki að baki.
Arnar rekur í grein sinni nánar hvernig þessum málum er háttað í þessum þremur löndum og dregur fram bæði það sem þau eiga sameiginlegt og hvað er ólíkt með þeim. Umfjöllun Arnars byggir á meistararitgerð, sem hann skrifaði um efnið og var einnig notuð í nýbirtri skýrslu heilbrigðisráðherra um efnið.
„Að framangreindu er ljóst að nálgast má lögleiðingu víðtækari lífslokameðferða með ólíkum hætti,“ skrifar Arnar í niðurlagi greinar sinnar. „Ef lögleiða á dánaraðstoð á Íslandi þarf að hafa lög og reynslu annarra þjóða í huga.“
Grein Arnars er sú þriðja af fjórum í sunnudagsblaðinu og má lesa hana í heild sinni í vefútgáfu Morgunblaðsins.