Framkvæmdarstjórn Reykjalundar hefur ákveðið að gera meðferðarhlé hjá öllum þjónustuþegum dag- og göngudeilda Reykjalundar í næstu viku vegna kórónuveirusmita sem greindust á deildinni Miðgarði.
Meðferðarhléið kemur til með að hafa áhrif annað hundrað skjólstæðinga, en þetta staðfestir Pétur Magnússon, forstjóri Reykjalundar í samtali við mbl.is.
Fimm sjúklingar og fimm starfsmenn Reykjalundar hafa greinst jákvæðir fyrir kórónuveirunni, og eru 30 starfsmenn og 11 sjúklingar nú í sóttkví. Af þeim fimm sjúklingum sem eru smitaðir komu þrír frá Landakoti á Reykjalund í síðustu viku. Sjúklingarnir hafa nú verið fluttir af Reykjalundi á Covid-deildir Landspítala.
Starfsemin á Reykjalundi hefur farið fram í skilgreindum sóttvarnarhólfum þannig að starfsemi Miðgarðs, deildarinnar þar sem smitið uppgötvaðist, hefur verið aðskilin annarri starfsemi. Stafsfólk annarra deilda hefur mannað vaktir á Miðgarði, en vegna verkferla á Reykjalundi getur það starfsfólk ekki farið til baka í sín hefðbundnu störf næstu daga.
Kemur þetta fram í tilkynningu sem forstjóri Reykjalundar sendi frá sér í dag.
Hlé verður gert á starfsemi allra átta meðferðarteyma Reykjalundar vikuna 26.-30. október. Starfsemi Heilsuræktar Reykjalundar verður enn lokuð og búast má við skerðingu á þjónustu Hleinar.