„Það var blóð úti um allt“

AFP

Hún vissi ekki af tilvist Kvennaathvarfsins. Hann var fjarlægður af heimilinu þegar lögreglan kom loks á vettvang. Nágrannar hringdu, þá fyrst kom barnavernd. Konan var of hrædd sjálf til að hringja á lögregluna. Þegar lögreglan og barnavernd loksins komu fékk konan fyrst upplýsingar um athvarfið. Nágrannar sáu hann berja hana fyrir framan börnin, það var blóð úti um allt.

Þetta er lýsing konu sem dvaldi um tíma í Kvennaathvarfinu og tók þátt í verkefninu. Hún er af erlendum uppruna og eins og margar þeirra kvenna sem þangað leita hafði enginn sagt henni frá því að þar gæti hún fengið hjálp. 

Drífa Jónasdóttir, verkefnastýra hjá Kvennaathvarfinu í Reykjavík og doktorsnemi við læknadeild Háskóla Íslands, hefur unnið tvær skýrslur um stöðu erlendra kvenna og barna þeirra sem hafa dvalið í Kvennaathvarfinu. Hún segir ljóst af svörum kvennanna að bæta verði upplýsingagjöf til kvenna af erlendum uppruna sem flytja til Íslands.

Skýrslan um stöðu erlendra kvenna sem hafa dvalið í Kvennaathvarfinu

Skýrslan um börn sem hafa dvalið í Kvennaathvarfinu

Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur og doktorsnemi við læknadeild Háskóla Íslands, vann …
Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur og doktorsnemi við læknadeild Háskóla Íslands, vann skýrslurnar fyrir Kvennaathvarfið. mbl.is/Hari

„Það er mikilvægt að þær fái upplýsingar um réttindi fólks á Íslandi. Að það sé ekki leyfilegt að beita fólk ofbeldi, sama af hvaða toga ofbeldið er. Það virðist vanta að festa í sessi verklag varðandi tilkynningar til barnaverndar vegna gruns um vanrækslu eða ofbeldi í mennta- og heilbrigðiskerfinu og að því sé fylgt eftir. Við verðum að fræða þá sem koma að allri þjónustu við börn um hvað heimilisofbeldi er og hvernig er birtingarmynd þess hjá börnum. Við megum heldur ekki gleyma því að það er kannski ekki okkar að meta hvort um ofbeldi er að ræða. Tilkynntu og láttu fagfólk um að meta hvort aðstæður viðkomandi einstaklings eru hættulegar eða óboðlegar,“ segir Drífa og fagnar því að vef Neyðarlín­unn­ar, 112.is, hef­ur verið breytt í alls­herj­ar upp­lýs­inga­torg fyr­ir þolend­ur, gerend­ur og aðstand­end­ur um allt sem viðkem­ur of­beldi auk þess sem nú er hægt að ræða við neyðarvörð gegnum netspjall.

Konur sem koma í viðtal eða dvöl í Kvennaathvarfið eru beðnar að lýsa tegund ofbeldis sem þær hafa verið beittar. Samkvæmt ársskýrslu Kvennaathvarfsins fyrir árið 2019 þá nefndu nær allar konurnar andlegt ofbeldi. 

Stór hluti þeirra kvenna sem þarf að þola andlegt ofbeldi býr við slíkt í hverri viku eða oftar eða 77%. Um 18%, af þeim sem höfðu reynslu af líkamlegu ofbeldi voru beittar því einu sinni í viku eða oftar og 26% af konunum sem höfðu reynslu af kynferðislegu ofbeldi, voru beittar því í hverri viku eða oftar.

„Í ljósi tegundar og umfangs ofbeldis er vert að skoða afleiðingar þess og framgang mála innan kerfisins. Rúmur helmingur kvennanna (53%) sem komu í athvarfið á árinu 2019 hafði hlotið áverka einhvern tímann í sambandinu og 23% dvalarkvenna voru með áverka á líkamanum við komu í Kvennaathvarfið. Alls sögðu 42% kvenna að lögreglan hefði komið á vettvang vegna ofbeldis gegn sér.

Rúmur helmingur (54%) kvenna sem kom í viðtal eða dvöl á árinu 2019 höfðu óttast um líf sitt vegna þess ofbeldis sem þær höfðu verið beittar. Þrátt fyrir hátt hlutfall kvenna sem hafa fengið áverka, óttast um líf sitt og fengið lögreglu á vettvang heimilisofbeldis, sögðust samt sem áður einungis 15% hafa kært núverandi geranda vegna þess ofbeldis sem hann hafði beitt konuna. Einungis 5% kvennanna höfðu fengið nálgunarbann og 5% höfðu fengið neyðarhnapp,“ segir í skýrslu um börn af erlendum uppruna í Kvennaathvarfinu.

Ástæðan fyrir því að skýrslurnar tvær, það er erlendar konur í Kvennaathvarfinu og börn kvenna af erlendum uppruna í athvarfinu voru unnar tengist rannsókn sem Drífa vann fyrir tveimur árum á upp­lif­un og líðan þolenda of­beld­is.

Sú rannsókn var bara á íslensku og segir Drífa að henni hafi fundist nauðsynlegt að fá mynd af upplifun erlendra kvenna og barna sem hafa búið við heimilisofbeldi. Í tengslum við vinnu við skýrslurnar tvær voru tekin eigindleg viðtöl við konur og mæður af erlendum uppruna sem dvöldu í athvarfinu. 

Skýrslan um erlendu börnin í athvarfinu er fyrsta samantektin af nákvæmlega þessu tagi á Íslandi. „Ef engin slík gögn eru til staðar getur verið erfitt að vita hvernig á að bæta þjónustu af þessum toga, bera saman við börn af íslenskum uppruna, kanna hvar megi stytta eða einfalda boðleiðir í kerfinu, hvað þarf að laga og hvað er gott í núverandi mynd,“ segir í skýrslunni en í greininni er fjallað um báðar skýrslurnar, það er viðtöl við erlendu konurnar og mæður barna af erlendum uppruna sem hafa dvalið í Kvennaathvarfinu.

Eða eins og Drífa segir – staða erlendra barna sem búa á ofbeldisheimilum og hafa komið í Kvennaathvarfið hefur ekki verið skoðuð áður á þennan hátt, umræðan hefur frekar verið byggð á tilfinningu.

mbl.is/Eggert

Mörg börn á Íslandi búa á ofbeldisheimili; lögreglan hefur komið á vettvang ofbeldisins, þau hafa þurft að flýja heimili sitt og flytja tímabundið í neyðarathvarf, tilkynning hefur verið send til barnaverndar og skólinn veit af ástandinu.

„Því miður er það samt ekki alltaf þannig að barnið fái viðeigandi þjónustu eða annars konar hjálp. Hvorki frá kerfinu né þeim fagaðilum sem stöðu sinnar vegna eiga að koma til aðstoðar vegna þess að barnið býr á ofbeldisheimili. Vonast er til að skýrslan varpi ljósi á þá stöðu sem börnin okkar í Kvennaathvarfinu búa við,“ segir Drífa meðal annars í skýrslunni. 

Frá meira en 50 löndum

Á árinu 2019 komu konur frá meira en 50 löndum í Kvennaathvarfið. Tæplega helmingur þeirra kvenna sem dvöldu í Kvennaathvarfinu í fyrra er af erlendum uppruna en eins og Drífa bendir á þá segir það aðeins hálfa söguna. 

„Hlutfall erlendu kvennanna í dvöl endurspeglar ekki endilega umfang heimilisofbeldis í garð erlendra kvenna á Íslandi almennt. Hátt hlutfall erlendra kvenna í dvöl gæti skýrst af því að erlendar konur hafa síður í önnur hús að venda, miðað við þær íslensku.“ Við það má bæta að hlutfall íslenskra kvenna í viðtölum var 74% samkvæmt ársskýrslu athvarfsins frá 2019.

Tæplega fjórðungur þeirra erlendu mæðra sem dvöldu í athvarfinu í fyrra var með áverka á líkamanum við komu og 63% kvennanna höfðu einhvern tímann fengið áverka vegna ofbeldis af hálfu mannsins sem þær voru að flýja.

Áverkarnir sem konurnar nefndu voru mar á hálsi og handleggjum, mar útum allan líkamann, fingurbrot, tannarbrot, mar á fæti, höfuðáverkar, marblettir, för á hálsi eftir kyrkingartak, bólgur á kinnbeinum, mar á öxl og mar á baki. 

Tæplega 10% erlendu kvennanna sem komu með börn og dvöldu í athvarfinu í fyrra voru barnshafandi þegar þær komu í athvarfið. Það er breytilegt milli ára hversu mörg börn á Íslandi flýja með mæðrum sínum í neyðarathvarf vegna ofbeldis á heimili. Síðastliðin sex ár (2014-2019) hafa að meðaltali 85 börn á ári dvalið í Kvennaathvarfinu í lengri eða skemmri tíma. Flest þeirra barna sem dvöldu í Kvennaathvarfinu í fyrra voru fimm ára og yngri. Sum börnin koma beint af fæðingardeildinni því ekki er talið óhætt fyrir móður að fara heim til sín með nýfætt barnið segir Drífa.  

Hún segir rannsóknir sýna að oft byrjar heimilisofbeldi á meðgöngu eða það stigmagnast. „Ofbeldi sem er kannski andlegt verður einnig líkamlegt og kynferðislegt þegar ofbeldismanninum líður mögulega eins og að hann sé kominn í annað sætið. Að athygli konunnar beinist að einhverju öðru en honum. Konurnar eru kannski þreyttari á meðgöngu og ekki eins duglegar við að „þjóna“ honum. Þær leita meira til mæðra, systra eða vinkvenna eftir ráðum í tengslum við meðgönguna og það þarf oft ekki meira,“ segir Drífa og ítrekar að útskýring sé eitt en afsökun er annað. Gerendur geti útskýrt sína hegðun en það sé hins vegar ekki afsökun fyrir hegðun.  

Ofbeldi á aldrei rétt á sér

„Ofbeldi í hvaða mynd sem er á aldrei rétt á sér. Ofbeldi elur af sér ofbeldi og þegar fólk elst upp við ofbeldi heldur það stundum að það sé normið – að beita aðra manneskju ofbeldi. Til að mynda sagði ein konan sem rætt var við frá því að faðir hennar hafi einnig verið ofbeldisfullur og verið dæmdur fyrir ofbeldi gegn henni. Hún þekkti ekki annað en heimilisofbeldi,“ segir Drífa. 

Hlutfall kvenna sem fer aftur heim til ofbeldismanns að dvöl lokinni, hvort sem er íslensk eða erlend, með barn eða ekki er 13-15% undanfarin ár. Miðað við þessi hlutföll virðist hærra hlutfall erlendra kvenna, með börn, fara aftur heim til ofbeldismannsins að dvöl lokinni eða næstum því fimmtungur (19%). 

Drífa segir að skýringin geti meðal annars verið að þær eiga ekki í önnur hús að venda. Þær eru ekki með bakland eins og margar innlendar konur sem eiga bæði fjölskyldur og vini. Staða kvenna sé enn verri nú á Covid-tímum þar sem konurnar eru bókstaflega lokaðar inni með ofbeldismanninum. Jafnframt hefur fjárhagsstaða margra versnað í faraldrinum með tilheyrandi álagi og spennu á heimilum. 

Af þeirri 191 konu sem áttu börn og leitaði í Kvennaathvarfið í fyrra sagði rúmur helmingur að barnaverndartilkynning hefði verið send vegna heimilisofbeldis. Börnin sem bjuggu á þessum ofbeldisheimilum voru 349 talsins. 

Alls höfðu 80% barnanna sem fjallað er um í skýrslunni verið beitt andlegu ofbeldi. Þegar spurt var um tíðni andlega ofbeldisins kom í ljós að í 92% tilfella höfðu börnin búið við ofbeldið alla sína ævi eða 11 börn af þeim 12 börnum sem höfðu búið við andlegt ofbeldi. 

Mæður sjö barna af 15 (47%) greindu frá því að börnin hefðu verið beitt líkamlegu ofbeldi. Með líkamlegu ofbeldi er t.d. átt við að sparka, klóra, kýla, slá utan undir, hrista, brenna, binda, beita vopni, kæfa, kyrkja, loka barn inni eða flengja barn. Þær nefna alls konar ofbeldi og ein móðir treysti sér ekki til að greina nánar frá því í viðtalinu. Ofbeldið hefur staðið yfir lengi og er ítrekað en engin mæðranna sem tók þátt í þessu verkefni greindi frá því að barn þeirra hefði verið beitt kynferðislegu ofbeldi.

Þegar mæðurnar voru spurðar út í hvort ofbeldið gagnvart börnunum hafi verið skráð hjá lögreglu vissu rúm 26% ekki svarið við spurningunni. „Hvers vegna er ekki ljóst, mögulega þekkja þær ekki ferlið hjá lögreglu hér á Íslandi eða hafa ekki nægilega góða tungumálakunnáttu til að kynna sér stöðu mála?“ segir í skýrslunni.

„Ég vildi óska að ein­hver hefði spurt mig hvernig mér liði, hvort allt væri í lagi eða at­hugaði með mig, en það gerðist aldrei. Ég vildi óska að ein­hver hefði hringt í lög­regl­una eða barna­vernd, en það gerðist aldrei.“

Þetta er lýs­ing stúlku á of­beldi sem hún varð fyr­ir á heim­ili sínu og fjallað er um í skýrslu UNICEF um ofbeldi gagnvart börnum á Íslandi. Hún er ein þeirra rúm­lega 13 þúsund barna á Íslandi sem hafa orðið fyr­ir lík­am­legu og eða kyn­ferðis­legu of­beldi áður en barnæsk­unni lýk­ur, fyr­ir 18 ára ald­ur. 

Þetta er meðal þess sem kom fram í umfjöllun mbl.is un skýrslu UNICEF um ofbeldi gagnvart börnum á Íslandi sem birt var í maí 2019. Tæp­lega eitt af hverj­um fimm börn­um hef­ur orðið fyr­ir of­beldi fyr­ir 18 ára ald­ur en alls eru 80.383 börn bú­sett á Íslandi og miðað við þann fjölda eru það rúm­lega 13 þúsund börn.

Líkt og Drífa bendir á er vitað hvar í íslensku samfélagi börn eiga að hafa snertiflöt við kerfið, í þessu verkefni var litið til heilbrigðiskerfis, skólakerfis og barnaverndar þó fleiri kerfi komi að málefnum og velferð barna á Íslandi. Kerfið er hugsað til þess að grípa inn í og aðstoða börnin, meðal annars þau börn sem búa við ofbeldi á heimili sínu. 

Því miður virðast mörg ljós ekki kvikna

„Í fullkomnum heimi myndu viðvörunarljós kerfisins loga á réttum stöðum og gripið yrði inn í málin í tæka tíð sem hefði síðan farsælan endi í för með sér. Því miður virðast mörg ljós annað hvort ekki kvikna eða þau fara í gang en enginn sér þau loga eða enginn veit hvað á að gera til að bregðast við ljósunum. Stundum loga ljósin skært alla barnæskuna, án aðkomu kerfisins. Margar ástæður gætu verið fyrir því og mikilvægt er að skilja hvernig má gera betur. Kerfið er hugsað til þess að grípa inn í og aðstoða börnin, meðal annars þau börn sem búa við ofbeldi á heimili sínu,“ segir í skýrslunni þar sem fjallað er um börn sem koma í Kvennaathvarfið með mæðrum sínum. 

Þegar Drífa er spurð hvað sé hægt að gera segir hún að bæta mætti verklag þegar kemur að móttöku í heimilisofbeldismálum í heilbrigðiskerfinu. Að taka enn betur á móti þessum sjúklingahópi, til að mynda við mæðraeftirlit. Það þyrfti að skrá málin í sjúkraskrárkerfi og vísa konum áfram í viðeigandi úrræði. Þannig mætti mögulega draga úr ítrekuðu og stigmagnandi ofbeldi í garð kvennanna og auka þar með lífsgæði þolenda ofbeldis. 

„Við sáum það í svörum kvennanna að starfsfólk leikskóla fylgist með og er tilbúið að aðstoða konurnar, tilkynna ofbeldið og gefa þeim ráðleggingar um hvert þær geti leitað. Aftur á móti vantar enn upp á að starfsfólk grunnskólanna fylgist betur með börnum í skólanum. Að gætt sé að börnum sem greinilega bera þess merki að eitthvað er ekki eins og það á að vera. Svo sem vísbendingar um vanrækslu, hegðun þess og annað atferli ekki í samræmi við það sem gengur og gerist hjá börnum á þessum aldri,“ segir Drífa. 

Hagsmuni barns á að setja í fyrsta sæti

Hún segir að það sé ekki bara í mennta- og heilbrigðiskerfinu sem mætti lækka þröskuldinn þegar kemur að tilkynningum varðandi börn og líðan þeirra.

„Þetta á við um alla í samfélaginu og að fólk hafi það í huga að ef þú hringir ekki þar sem þú vilt ekki taka afstöðu eða vera að „skipta þér af“, þá verður þú að muna að barnið á að njóta vafans. Viltu frekar að barnið búi áfram við ömurlegar aðstæður hvort sem það er af hálfu móður eða föður heldur en að skipta þér af. Við megum ekki gleyma því að barnavernd starfar fyrir börn og hefur hagsmuni barns að leiðarljósi. Við verðum alltaf að setja hagsmuni barnsins í fyrsta sæti ekki okkar hagsmuni þó svo það sé stundum einfaldara og þægilegra,“ segir Drífa.

AFP

Í skýrslunni um erlendu konurnar í Kvennaathvarfinu er mjög algengt að konurnar nefni að þær hefðu viljað vita meira um Kvennaathvarfið þannig að þær hefðu getað tekið ákvörðun um að fara fyrr af heimilinu og í athvarfið. Einnig kemur í ljós að gerendur virðast reyna að gefa konum rangar upplýsingar td. að þeir muni hafa af þeim börnin ef þær leiti sér hjálpar. Jafnvel logið því að Kvennaathvarfið væri bara fyrir konur í neyslu og geðveikar. 

Svo virðist sem konurnar upplifi að lögreglan sé að gera hlutina vel og að þar sé verklag sem virki þegar lögreglan kemur á vettvang. Ein kona nefndi að ef lögreglan í heimalandi hennar hefði verið eins góð að meðhöndla heimilisofbeldismál og hún upplifði hér á Íslandi þá hefði hún fyrir löngu verið búin að slíta sig úr ofbeldissambandinu.

mbl.is/Hjörtur

Fræðsla við komuna til landsins: „Það virðist koma nokkuð skýrt fram að konurnar skorti upplýsingar um rétt sinn hér á landi og að gerendur jafnvel noti sér þekkingarleysi kvennanna. Þær nefna til dæmis að gerandi hafi hótað að taka börnin af þeim og koma málum svo fyrir að þær fái ekki að sjá börnin aftur. Slíkar sögur erlendra kvenna sem í athvarfið leita eru ekki óalgengar, sem og að konan megi ekki vera lengur á landinu ef hún skilur við gerandann því hún hafi ekki neinn rétt hér. Það væri möguleiki fyrir til dæmis þau kerfi sem vinna beint að málum erlendra kvenna sem hingað flytjast, eins og Þjóðskrá, sýslumannsembættin og Útlendingastofnun að setja upp fræðsluefni á mörgum tungumálum um helstu réttindi kvenna á Íslandi.

Fræðsluna fengju konurnar þegar þær kæmu að sækja um leyfi eða að skila inn gögnum til þessara stofnanna við komuna inní landið. Slík fræðsla gæti tekið af allan vafa um það hvað er ofbeldi og hvort megi beita konur og börn ofbeldi á Íslandi.

Hvort konan eigi að láta maka sinn hafa alla þá peninga sem hún vinnur fyrir, hvort konan eigi að gera eitt og annað að ósk/skipun maka og hvort makinn eigi að ráða hvernig öllum málum sé háttað á heimilinu. Hvort makinn megi eða geti tekið af henni börnin og ákveðið einn forsjá um umgengni eða sent hana eina heim. Hvað gerist ef hún sækir um skilnað á grundvelli heimilisofbeldis eða annars, hvort hún geti hringt í lögregluna eða haft samband við 112 þegar hún eða börnin eru beitt ofbeldi á sínu heimili. Slík fræðsla yrði þolendum heimilisofbeldis án efa til hagsbóta,“ segir í skýrslunni. 

Drífa segir að komið hafi upp dæmi um að karlar flytji hingað inn konur og svo þegar þeir fá leið á þeim er konunum hent út. Þær vita ekki um réttindi sín, hvort þær eru löglegar í landinu eða ekki. „Þeir hafa sagt eitt og svo þegar þær leita eftir upplýsingum kemur í ljós að þær eru réttlausar og ekkert annað í boði en að fara úr landi eftir langa dvöl á Íslandi. Hluti  þessara kvenna er mögulega ekki með neitt tengslanet og engin bjargráð, svo sem síma, Facebook eða fjárráð. Þær eru einangraðar og auðvelt fyrir ofbeldismennina að stjórna þeim,“ segir Drífa og bendir á þá sorglegu staðreynd að þær telja sig öruggar þar sem þær eru eða réttara sagt eins öruggar og þær geta verið, og því sé mögulega skárri kostur að vera bara áfram í sambandinu. „Þeir hafa sorfið af þeim allt félagslegt, líkamlegt og andlegt sjálfstæði og þær lokast inni í heimi ofbeldisins,“ segir Drífa.

Þegar konurnar eru spurðar hvað ráð þær hefðu fyrir aðrar konur í sömu stöðu og þær voru í áður hvetja þær kynsystur sínar til að forða sér: Hlauptu!, farðu strax, þessir menn breytast ekki. „Búmm - nefbrot - Tenerife - nýr bíll - ofbeldi aftur,“ er meðal þeirra svara sem komu fram í viðtölunum.

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Stór hluti kvennanna hafði hlotið áverka eftir ofbeldið og flestar þeirra höfðu þurft að leita aðstoðar hjá heilbrigðiskerfinu. Þær sem það gerðu sögðu frá raunverulegri atburðarrás sem leiddi til áverkanna í 80% tilfella en 20% kvennanna sagði aðra sögu við heilbrigðisstarfsfólk.

Allar konurnar sem sögðust hafa verið teknar kyrkingartaki sögðust hafa fengið ummerki á hálsi eftir kyrkingartakið. Með kyrkingartaki er hér átt við að þrengt sé að öndunarvegi eða reynt að stöðva blóðrás til heila, hvort sem konan missi meðvitund eða ekki. 

Samkvæmt því sem þátttakendur segja mætti gera enn aðgengilegri ýmsar hagnýtar upplýsingar um Kvennaathvarfið, bæði varðandi dvöl og viðtöl. Sú vinna er þegar hafin í athvarfinu og upplýsingar um ýmis hagnýt atriði eru þegar komnar á heimasíðu athvarfsins á ýmsum tungumálum.

AFP

Drífa segir að meira þurfi að koma til. Að við sem samfélag, hvort sem við störfum í kerfinu eða sem áhorfendur þá verðum við öll að grípa inn.  

„Afleiðingarnar af ofbeldi á heimili eru svo alvarlegar fyrir alla, ekki bara fyrir konuna heldur einnig börnin á heimilinu. Eins er biðtíminn eftir aðstoð allt of langur. Hvernig er hægt að bjóða barni sem er tveggja ára upp á aðstoð þegar það er fjögurra ára. Það er svona eins og fertug manneskja fengi loks aðstoð um áttrætt. Gengur einfaldlega ekki upp. 

Mörgum finnst það þröskuldur að hafa samband og tilkynna en ekki gleyma barninu eða konunni sem verður fyrir ofbeldinu. Verðum að stöðva ofbeldi og við getum gert það meðal annars með því að tilkynna til að mynda til barnaverndar, lögreglunnar eða Neyðarlínunnar,“ segir Drífa Jónasdóttir.

Á vef Barnaverndarstofu kemur fram að flestar tilkynningar til barnaverndarnefnda koma frá lögreglu.  Flestar tilkynningar eru vegna vanrækslu, ofbeldis og áhættuhegðunar barns. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka