„Virðist vera mjög smitandi“

Páll Matth­ías­son, for­stjóri Landspítalans, á fundi almannavarna í dag.
Páll Matth­ías­son, for­stjóri Landspítalans, á fundi almannavarna í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans segir brýnasta verkefni spítalans nú vera að tryggja næg meðferðarrými fyrir sjúklinga sem þau þurfa. „Til þess að það sé hægt þurfum við að færa fólk til, útskrifa og flytja, en það er flóknara en oft vegna þess að nú þarf að tryggja sem aldrei fyrr að þeir séu ekki smitaðir,“ segir Páll í samtali við mbl.is.

Það hefur gerst að Covid-smitaðir sjúklingar hafi verið færðir á milli staða og hafa þeir þá borið smit á þá staði, einkum frá Landakoti og á Reykjalund og á hjúkrunarheimilið Sólvelli.

Vitað er til þess að 77 einstaklingar tengist hópsmitinu sem varð á Landakoti eftir að starfsmaður virðist hafa smitað sjúkling fyrr í mánuðinum. Smitrakningu er hvergi nærri lokið og segir Páll að á meðan svo sé verði að gera ráð fyrir að fjöldi smitaðra í hópsýkingunni sé töluvert fleiri en nú liggur fyrir. 

Sóttkvíarhlutfallið ekki lýsandi

Páll segir að enn sjái ekki fyrir endann á þeirri vinnu að ná utan um smitin. Hátt hlutfall smitaðra sem er í sóttkví við greiningu segir ekki fyrir um útbreiðslu smitsins, eins og í öðrum tilvikum.

„Við erum í þessu tilfelli ekki að horfa mikið á sóttkvíarhlutfallið út af því hvers eðlis þessi klasasýking er. Við erum meira að horfa á smitstuðulinn og þetta virðist vera mjög smitandi, þessi tegund veirunnar, og það er náttúrulega hlutur sem veldur okkur áhyggjum. Þess vegna erum við á fullu í þessu.“

Kemur ekki algerlega á óvart 

Páll segir að það hafi gerst sem fólk óttaðist mest. 

„Sóttvarnalæknir og fleiri hafa spáð því að þetta væri það sem hætta væri á, að sýking kæmi upp í viðkvæmum hópum. Þetta er það sem við höfum óttast en ef þú spyrð mig hvort þetta komi mér algerlega á óvart þá er svarið nei. Þetta er lúmsk og erfið veira og það þarf ekki mikið til að hún komi svona upp.“

Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir sagði á fund­in­um að ekki væri til­efni …
Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir sagði á fund­in­um að ekki væri til­efni til að herða sam­fé­lags­leg­ar aðgerðir. Hann sagði að hóp­sýk­ing­ar gætu komið upp hvar sem er, en að nú hafi slík sýk­ing komið upp á versta stað. Fylgjast þarf með því hvort hópsýkingin teygi anga sig víðar inn í samfélagið. Ljósmynd/Lögreglan

Páll segir starfsfólk sjúkrahúsanna mjög öflugt í sóttvörnum en að þetta sýni að ekki mikið megi út af bregða. Of snemmt sé að fullyrða um hvað nákvæmlega brást eða hvort einhver verði dreginn til ábyrgðar fyrir það. 

„Það kæmi mér á óvart ef niðurstaðan yrði sú. Ef um ásetning er að ræða eða eitthvað annað slíkt, eins og vítavert gáleysi, er það auðvitað eitthvað sem þarf að skoða, en við höfum engar vísbendingar um að svo sé.“ 

Forgangsraða þeim veikustu

Ásamt því að unnið er að rakningu er verið að tryggja að alvarlega veikt fólk fái áfram þjónustu. Til þess að svo geti verið þurfa verkefni sem geta beðið að bíða, til að byrja með þar til í nóvember, virðist vera. 

„Ef hlutir geta ekki beðið eru þeir teknir, þannig að þetta lýtur ekki að þeim aðgerðum. Valkvæðar aðgerðir eru aðgerðir sem geta beðið, þannig að óþægindin verða til staðar en við vonum að almenningur sýni því skilning að við svona aðstæður verðum við að forgangsraða þeim veikustu og því sem alls ekki getur beðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert