Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra segir að til standi að leggja aukna áherslu á eineltismál innan menntamálaráðuneytisins. Verður frekari áhersla lögð á svokallað fagráð eineltismála ásamt aðgerðum í samvinnu við Vöndu Sigurgeirsdóttur, lektor við HÍ, sem hefur sérhæft sig í málaflokknum.
Hlutverk fagráðsins er að veita skólasamfélaginu stuðning vegna eineltismála með almennri ráðgjöf, leiðbeiningum og upplýsingagjöf og er hægt að vísa eineltismálum þangað ef ekki tekst að finna fullnægjandi lausn á eineltismálum innan skóla eða sveitarfélags eða vegna meints aðgerðarleysis sömu aðila. Er hlutverk fagráðsins að veita ráðgefandi álit á grundvelli þeirra gagna. Að sögn Lilju hefur fagráðið ekki verið nægjanlega vel kynnt til þessa en til standi að gera úrbætur á því. „Við vitum hversu mikil meinsemd einelti er og getur hún haft langtímaáhrif á framtíð fólks,“ segir Lilja.
Hún hafi sett sig í samband við Sigrínu Elínu Ásmundsdóttur, móður drengs í 6. bekk í Sjálandsskóla, sem lýsti grófu ofbeldi í garð sonar síns í færslu á Facebook. Að auki hafi hún rætt við forráðamenn í Sjálandsskóla.
„Ég vil að við getum styrkt kerfið okkar þannig að þessi mál fari í betri farveg. Við höfum sett á fót fagráð eineltismála inni í menntamálastofnun og þegar málin eru komin í öngstræti þá þarf fagráðið að koma að málinu. Mig langar að þróa þennan feril betur í samvinnu við skólasamfélagið og við foreldrasamfélagið,“ segir Lilja í umfjöllun í mál þetta í Morgunblaðinu í dag.