Mögulega tilkynnt sem alvarlegt atvik

Landakotsspítali.
Landakotsspítali. mbl.is/Golli

Það á eft­ir að koma í ljós hvort kór­ónu­veiru­smitið sem kom upp á Landa­koti verður til­kynnt til embætt­is land­lækn­is sem al­var­legt at­vik. Ekki er tíma­bært að hugsa um slíkt sem stend­ur.

Þetta seg­ir Kjart­an Hreinn Njáls­son, aðstoðarmaður land­lækn­is.

Sem stend­ur er um inn­an­húss­mál að ræða hjá Land­spít­al­an­um og for­gangs­atriði hjá starfs­fólk­inu þar að ná utan um stöðuna á spít­al­an­um áður en farið verður í enn frek­ari grein­ingu á því sem gerðist. Spít­al­inn er sjálf­ur í smitrakn­ingu með aðstoð frá smitrakn­ing­ar­t­eymi al­manna­varna, bæt­ir Kjart­an við og seg­ir embætti land­lækn­is ekki koma að því með bein­um hætti að greina hvað gerðist, eins og staðan er núna.

Áminn­ing myndi koma til greina

Ef málið verður til­kynnt sem al­var­legt at­vik verður það tekið fyr­ir eins og önn­ur slík. Til dæm­is verður kallað eft­ir margs kon­ar gögn­um og talað við starfs­fólk.  

Spurður hverj­ar séu af­leiðing­ar af starfs­fólk ger­ist upp­víst að al­var­legu at­viki seg­ir hann að stund­um veiti embætti land­lækn­is því áminn­ingu. Eng­inn grun­ur sé þó um að meiri­hátt­ar mis­brest­ur hafi orðið varðandi smitið á Landa­koti. „Við þurf­um auðvitað að draga ein­hvern lær­dóm af þessu. Við rann­sök­um öll mál í því skyni að við get­um forðast svona í framtíðinni,“ seg­ir Kjart­an Hreinn.

Lög­regl­an á Vest­fjörðum rann­sak­ar málið sem kom upp á Vest­fjörðum varðandi smitið um borð í tog­ar­an­um Júlí­usi Geir­munds­syni sem saka­mál. Á upp­lýs­inga­fundi í morg­un sagði Víðir Reyn­is­son yf­ir­lög­regluþjónn að kannaður hefði verið orðróm­ur um að gleðskap­ur hefði verið hjá starfs­fólki Landa­kots sem mögu­lega hefði valdið smit­inu sem þar kom upp. Orðróm­ur­inn reynd­ist ekki á rök­um reist­ur.

Spurður út í mál­in tvö tel­ur Kjart­an Hreinn þau ekki vera sam­bæri­leg en bend­ir á að lög­regl­an þurfi að svara því bet­ur. Ekki náðist í Víði við vinnslu frétt­ar­inn­ar.

Í svari við fyr­ir­spurn mbl.is seg­ir Anna Sigrún Bald­urs­dótt­ir, aðstoðarmaður for­stjóra Land­spít­al­ans, að þau geri ráð fyr­ir því að skoðun á at­b­urðunum á Landa­koti muni taka nokk­urn tíma. Fyrst þurfi þó að kom­ast fyr­ir smitið áður en hægt verði að fara af stað á fullu með rann­sókn.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert