„Samstaða og samkennd fleytir okkur svo langt“

Eliza Reid forsetafrú og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands við …
Eliza Reid forsetafrú og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands við bautasteina á Flateyri og í Súðavík. Þeir voru reistir til minningar um þá sem létust í snjóflóðunum.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, minnist þess á facebooksíðu sinni að í dag er aldarfjórðungur frá því að snjóflóð skall á Flateyri við Önundarfjörð. Þá fórust 20 manns, þar af fjögur börn. Fyrr árið 1995 hafði snjóflóð, sem fór yfir byggðina á Súðavík, orðið 14 að aldurtila. Í þeim hópi voru átta börn.

Fyrr á þessu ári féll stórt snjóflóð á Flateyri sem olli tjóni en engum mannskaða. Guðni minnir Íslendinga á að þeir búi í harðbýlu landi og það hafi þeir gert í meira en þúsund ár, séu ekki á förum enda sjálfstæð þjóð og dugleg, „þrjósk og það hefur komið sér vel“.

„Við höfum þurft að þola hvers kyns hamfarir og slys, skriðuföll og snjóflóð, jarðskjálfta og jarðelda, mannskaða á sjó og landi. Hafið og fjöllin geta valdið miska og sorg, en hafið og fjöllin laða sömuleiðis. Eða er það kannski fólkið ‒ fólkið á þessum stað? Já, það er fólkið á þessum stað – fólkið á Flateyri, fólkið í Súðavík og annars staðar vestra, fólkið hér syðra, fólkið um allt land. Samstaða og samkennd fleytir okkur svo langt. Við búum í harðbýlu landi, já, en landið er líka ljúft, eins og mannfólkið að fornu og nýju. Ein elsta rúnarista sem fundist hefur hér er nær þúsund ára gömul. Þar má greina eitt orð vel. Það orð er ást.“

Á myndinni eru Guðni og Eliza Reid forsetafrú með heimafólki …
Á myndinni eru Guðni og Eliza Reid forsetafrú með heimafólki við bautasteina á Flateyri og í Súðavík. Þeir voru reistir til minningar um þá sem létust í snjóflóðunum.

Guðni sendir öllum sem þurftu að þola missi og sorg eftir náttúruhamfarirnar vestra hlýjar kveðjur. 

„Í ljósi þess að ekki er hægt að koma saman nú mun Björgunarsveitin Sæbjörg á Flateyri vera með beina vefútsendingu frá minningarstund þar í kvöld. Að henni lokinni munu félagar björgunarsveitarinnar tendra tuttugu blys á snjóflóðavarnargarðinum til minningar um þá sem fórust í snjóflóðinu,“ skrifar Guðni.

Dagskráin verður í beinni útsendingu á facebooksíðu Björgunarsveitarinnar Sæbjargar á Flateyri og mun útsending hefjast klukkan 20:00 í kvöld.

Höfðu mikil áhrif á samfélagið

Morgunblaðið fjallaði um snjóflóðið í dag. Þar var til að mynda rætt við Magnús Einar Magnússon, formann björgunarsveitarinnar Sæbjargar. 

„Snjóflóðin höfðu mikil áhrif á samfélagið hér á Flateyri og hafa mótað bæjarbraginn allt til þessa dags,“ sagði Magnús Einar.

„Björgunarsveitin hér hefur meðal annars lagt sig eftir því í æfingum sínum að vera sem best í stakk búin að sinna snjóflóðum og afleiðingum þeirra. Sveitin er vel sett með búnað í slík verkefni, sem stundum koma vegna snjóflóða, til dæmis á Hvilftarströnd hér innan við þorpið. Þá varð snjóflóðið hér í janúar sl. til þess að ýfa upp sár og skapa hræðslu.“

Það var klukkan rúmlega fjögur aðfaranótt fimmtudagsins 26. október 1995 sem snjóflóð féll úr svonefndri Skollahvilft í fjallinu ofan við Flateyrarþorp. Tunga flóðsins gekk yfir stóran hluta byggðarlagsins og féll á 19 íbúðarhús, flest utan skilgreinds hættusvæðis. Alls voru 45 manns í húsunum. Fjórir fundust á lífi í rústum en 21 bjargaðist af eigin rammleik eða með aðstoð nágranna.

Sorg þeirra er okkar sorg

Allir lögðust á eitt og fyrstu fimm klukkustundirnar náði engin utanaðkomandi aðstoð á svæðið. Þegar leið á morguninn bárust bjargir, en alls héldu 340 björgunarsveitarmenn til Flateyrar og 230 til viðbótar voru í viðbragðsstöðu víða um land. Náttúruhamfarir þessar skóku þjóðlífið allt; sköpuðu samhug og sterk viðbrögð.

„Okkur er orða vant, Íslendingum öllum, þegar við í dag enn horfumst í augu við afleiðingar miskunnarlausra náttúruhamfara, en um leið finnum við hvað við erum nákomin hvert öðru, hve þétt við stöndum saman þegar raunin ber að höndum. Við erum öll nú hverja stund með hugann hjá þeim sem hafa orðið fyrir þungbærum raunum. Sorg þeirra er okkar sorg,“ sagði Vigdís Finnbogadóttir í ávarpi.

Ítarlegri umfjöllun um snjóflóðið er að finna í Morgunblaði dagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert