Segir engin ummerki um misbrest

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að ekki sé útlit fyrir að misbrestur hafi orðið í starfsemi Landakotsspítala sem leiddi til þess að hópsmit kom upp innan spítalans.

Í þætti Kastljóss nú í kvöld staðfesti hann að 83 kórónuveirusmit væru nú komin upp sem rekja megi til hópsmitsins. Hann segir að nú verði metið hvort ástæða sé til að tilkynna hópsmitið sem alvarlegt atvik til sóttvarnalæknis eða landlæknisembættisins.

„Við sjáum ekki nein merki um að alvarlegur misbrestur hafi orðið,“ sagði Páll í Kastljósi við spurningu um hvernig hópsmit hafi getað komið upp á Landakotsspítala.

„Ég held að þetta sýni hversu lúmsk og erfið viðureignar þessi veira er.“

Málið verður skoðað

Spurður hvort ekki væri tilefni til þess að ráðast í gagngera skoðun á starfsemi Landskotsspítala í ljósi hópsmitsins segir Páll að skoða þurfi hvort tilefni sé til að tilkynna það.

„Við erum að reyna að átta okkur á hvað lá þarna að baki. Við munum svo í kjölfarið meta hvort ástæða sé til að tilkynna þetta til sóttvarnalæknis eða landlæknis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert