Umboðsmaður Alþingis segir sóttvarnalög óskýr

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis (t.h.).
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis (t.h.). Ljósmynd/Styrmir Kári

Umboðsmaður Alþingis segir almannahagsmuni liggja við því að valdheimildir í sóttvarnalögum verði skýrðar nánar, og að það sé hlutverk heilbrigðisráðherra að sjá til þess að það verði gert. Þetta kemur fram á vef umboðsmanns í dag.

„Það leiðir [...] af eðli þeirra inngripa og áhrifa sem sóttvarnaaðgerðir vegna COVID-19 hafa haft bæði fyrir einstaklinga og atvinnufyrirtæki þar sem m.a. hefur reynt á stjórnarskrárvarin réttindi og fjárhagslegar afleiðingar að ég tel að stjórnvöld eigi að því er varðar lagalega umgjörð þessara mála að gæta þess fyrir sitt leyti að hún sé eins skýr og kostur er,“ segir í bréfi sem umboðsmaður skrifaði til forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra í vikunni.

Umboðsmaður hefur þegar fengið svör við fyrirspurn sinni frá stjórnvöldum um að hafinn sé undirbúningur á endurskoðun sóttvarnalaga, og að áætlað sé að leggja frumvarp þess efnis fyrir Alþingi í janúar. Hann minnir þó á að ráðherrar skuli sjá til þess að lagaheimildir sem stórnvöld starfa eftir séu eins skýrar og kostur er.

„Heimild ráðherra til að hafa frumkvæði að flutningi lagafrumvarpa á Alþingi er einmitt ætlað að tryggja ráðherra úrræði til að kalla eftir þeim heimildum sem hann telur sig þurfa og eru ekki þegar í lögum eða eru ekki fyllilega skýrar.“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá segir umboðsmaður ekki vera tilefni til þess að fjalla almennt um lagaheimildir til sóttvarnaaðgerða og einstakra ráðstafana, heldur þurfi að skoða einstök tilvik sem upp koma og meta aðstæður í ljósi þeirra heimilda sem beitt er.

„Það eru líka almannahagsmunir að lagaþrætur um þessi mál leiði ekki til þess að ónýta þann árangur sem sóttvarnaaðgerðum til að hemja bráðsmitandi sjúkdóm, sem í senn getur reynst lífi fólks hættulegur og sett starfsemi heilbrigðiskerfisins úr skorðum, er ætlað að ná,“ segir umboðsmaður.

Borið hefur á kvörtunum til umboðsmanns þar sem kannaður er möguleiki á stjórnsýslukæru vegna sóttvarnaráðstafana stjórnvalda, m.a. vegna grímuskyldu í framhaldsskólum og heimkomusóttkvíar.

Umfjöllun umboðsmanns Alþingis má nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert