Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans, segir að unnið sé að því að rannsaka hvað gerðist á Landakotsspítala og leiddi til þess að smit barst í fjölda sjúklinga. Þegar það liggur fyrir verður það gert opinbert. „Það skiptir okkur máli sem fagstofnun. Við viljum komast til botns í því hvað er á seyði hér og fyrst og síðast draga af því lærdóm, ef það eru einhver vandamál í okkar vinnuferlum, þá þarf að laga þau,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.
Samtals 77, þar af um fjörutíu manns áttræðir eða eldri, eru smitaðir eftir hópsýkingu sem á uppruna að rekja til Landakots og talið er að fyrst hafi smit ratað þangað inn með starfsmanni. Það breiddi síðan nokkuð hratt úr sér en talið er að fyrsta kórónuveirusmitið laumist inn á stofnunina 12. október. Síðan voru sjúklingar fluttir þaðan á Reykjalund og á Sólvelli á Eyrarbakka. Þeir reyndust sumir smitaðir, sem aftur leiddi til hópsýkinga á þessum stofnunum.
Óútskýrt er hvað átti sér stað sem olli svona hraðri útbreiðslu smits meðal sjúklinganna en Már telur að starfsfólkið leiki þar lykilhlutverk. Húsnæðið sé þá barn síns tíma. Í flestum sjúkrarýmum spítalans eru fleiri en einn sjúklingur: „Auðvitað væri ákjósanlegt að alls staðar væru einbýli en því er ekki til að dreifa á Landakoti, þó að það sé á sumum deildum,“ segir Már. „Það hefur komið fram að húsnæðið þarna er ekki „ídeal“ með tilliti til sýkingavarna. Þar eru of fá salerni miðað við sjúklinga og slíkt, jafnvel þó að bætt hafi verið úr þessu á undanförnum árum. Þetta er ekki fullnægjandi og vankantar svona húsnæðis koma best í ljós þegar mest ríður á.“
Hann telur ekki að húsnæðismál hafi haft mikið að segja um útbreiðslu smitsins. „Ég held að útbreiðslan hafi ekki tengst húsnæðinu sérstaklega eða einhverri þröng á þingi, heldur endurspeglar þetta smitunarhátt þessarar veiru, sem er dropasmit og snertismit. Eðli smits af þessari tegund er slíkt, að það erum oftast nær við starfsmenn sem erum farartæki smitefnisins á milli sjúklinganna,“ segir hann.
Þegar smit sé síðan komið inn í sjúklingahóp geta þeir borið það hver í annan. „Það fer líka eftir færni þeirra til að fylgja fyrirmælum og oft eftir vitsmunastigi fólks. Sumir eru með vitsmunasjúkdóma og annað sem getur dregið úr getu þeirra til að bregðast við,“ segir Már í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag.